Strandveiðifélag Íslands, félag um réttlæti í sjávarútvegi, var formlega stofnað í gær á stofnfundi félagsins. Gunnar Ingiberg Guðmundsson, nýkjörinn formaður félagsins, segir í samtali við mbl.is að fundurinn hafi verið vel sóttur og aðsóknin hafi verið framúr björtustu vonum.
Gunnar nefnir þó að brösuglega hafi gengið að koma upp fjarfundabúnaði fyrir fundinn sem varð til þess að þeir sextíu félagsmenn sem fylgdust með fundinum í gegnum beint streymi gátu ekki kosið.
„Það verður leiðrétt með aukaaðalfundi. Ætli það verði ekki boðaður stjórnarfundur á morgun og ætli aðalfundurinn verði ekki haldinn innan fjögurra vikna í það minnsta,“ segir Gunnar.
Vilja laga strandveiðikerfið
Aðspurður segir Gunnar markmið félagsins að fá strandveiðikerfið lagað.
„Það er í rauninni um það að kerfið standist þá lög og uppfylli þetta álit. Við ætlum að sækja það, það er megintilgangurinn,“ segir Gunnar og vísar í álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá október 2007 þar sem fram kemur að íslensku lögin um stjórn fiskveiða brjóti í bága við 26. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi um jafnrétti allra manna. Þetta kom einnig fram í tilkynningu félagsins í gær.
Gunnar segir að Facebook-hópur félagsins hafi verið stofnaður fyrir nokkrum árum en formlegt félag ekki sett á laggirnar fyrr en nú þar sem á þeim tíma höfðu þau trú á því að Landssamband smábátaeigenda myndi berjast frekar fyrir strandveiðum.
„Það er alltaf þannig að það er aldrei hægt að ræða strandveiðar nema tíu mínútum áður en strandveiðar byrja og eins og ég segi það er ekki pólitískur vilji og held ég að það sé hægt að þvinga hann fram með áliti frá erlendum stofnunum.“