Útgerðarfyrirtækið Vestri ehf. á Patreksfirði gekk í gær frá samningi um kaup á norska frystitogaranum Tobis með það fyrir sjónum að gera hann út á rækju- og bolfiskveiðar. Togarinn liggur við bryggju í Hafnarfirði og þangað fóru fulltrúar vestfirsku útgerðarinnar í lokaskoðun áður en gengið var frá kaupsamningi.
Við lokaskoðun var Tobis tekinn í slipp í Hafnarfirði þar sem botninn var skoðaður og skipið allt yfirfarið, útksýrir Sigurður Viggósson, framkvæmdastjóri og hluthafi í Vestra ehf. „Samgöngustofa tekur hann líka út. Við erum að flytja hann til landsins og þarf hann að fullnægja íslenskum reglum varðandi öryggisbúnað.“
46 árum yngri
Með kaupunum er verið að endurnýja skipakost fyrirtækisins að sögn Sigurðar og er óhætt að segja að töluverð breyting verði með tilkomu nýja skipsins. Um árabil hefur verið gert út á dragnóta- og togbátinn Vestra BA-63 sem smíðaður var 1963 og er orðinn 59 ára. Vestri er 28,9 metrar að lengd, 8,1 metrar að breidd og 293 brúttótonn.
Tobis var smíðaður af Karstensens-skipasmíðastöðinni í Danmörku 2009 fyrir danska útgerð og seldur til Noregs árið 2018 þar sem Tomafisk AS gerði togarann út.
Skipið er 46 árum yngri en Vestri BA og mun stærra; alls 39,9 metrar að lengd og tíu metra breiður. Um er að ræða tveggja trolla togara sem er fullbúinn til veiða, að sögn Sigurðar sem bætir við að aðbúnaður áhafnarinnar muni batna töluvert með nýja skipinu. Þá sé það eina sem þarf til að skipið verði klárt „smá íslenskar lagfæringar“ útskýrir hann.
Tobis er myndarlegt skip.
Ljósmynd/Atlantic Shipping
Kátir á Patró
Nýja skipið mun fá nafnið Vestri eins og fyrirrennari þess og verður Jón Árnason skipstjóri, en hann er einnig hluthafi í útgerðinni.
„Við erum bara kátir vestur á Patró með að við séum að fá loksins togara eftir áratugi,“ segir Sigurður. Áætlað er að togarinn sigli til Patreksfjarðar á næstu dögum og hefji veiðar á næstu vikum. „Hann verður aðallega á rækju yfir árið og svo bolfiskveiðum einhverja mánuði.“