Matvælaráðuneytið segir stefnt að því að breyta reglugerð um skráningu og rafræn skil aflaupplýsinga „þannig að hægt verður að skila aflaupplýsingum til Fiskistofu á formi sem hægt verður að nálgast á vefsíðu stofnunarinnar,“ að því er fram kemur í bréfi ráðuneytisins til Landssambands smábátaeigenda (LS).
Fjallað er um bréfið í færslu á vef sambandsins. Samkvæmt bréfinu á að veita Fiskistofu heimild til að „innheimta þjónustugjald fyrir vinnu við aflaupplýsingar.“
Áður hafði Fiskistofa tilkynnt að smáforrit og skráningarvefurinn aflaskraning.is yrðu gerð óvirk frá og með 1. apríl og þeim notendum sem ekki voru þegar að kaupa þjónustu af hugbúnaðarfyrirtækjum beint í slík viðskipti, ella væri hægt að forrita eigin kerfi til skila á aflaupplýsingum.
LS sakaði Fiskistofu um að velta kostnaði við eftirlit yfir á smábátaeigendur. Þessu hafnaði Fiskistofa alfarið.
Funduðu fulltrúar sambandsins með Fiskistofu og lýstu fyrir stofnuninni að þrátt fyrir að stofnunin hygðist ekki lengur reka smáforrit og vefviðmót fyrir skil á aflaupplýsingum, losaði það ekki Fiskistofu undan skyldu til að standa straum af kostnaði við móttöku aflaupplýsinga sem útgerðum er gert að skila samkvæmt lögum.
Fiskistofa bar fyrir sér að um væri að ræða aðgerðir til að gera eftirlit ódýrara. LS vildi þó meina að veiðigjöldum væri ætlað að standa straum að rekstri Fiskistofu og Hafrannsóknastofnun. Lagði sambandið fram lögfræðilega álitsgerð máli sínu til stuðnings.
„Þegar ljóst var að mál rötuðu ekki eftir þeim farvegi sem hér er lýst sendi LS erindi til Matvælaráðuneytisins í byrjun mars og í kjölfarið var fundað þann sjöunda til að reyna að finna lausn. Á fundinum mótmælti LS því að kostnaði vegna lögboðinna skila á upplýsingum til Fiskistofu og Hafrannsóknastofnunar, sem hingað til hefur verið greiddur af hinu opinbera, sé velt yfir á smábátaeigendur,“ segir í færslunni á vef LS.
Svar frá ráðuneytinu barst í vikunni og er þar útilokað að skipstjórnarmönnum verði gert að „semja við einkaaðila um notkun eða þróun á hugbúnaði til að skila aflaupplýsingum til Fiskistofu í gegnum vefþjónustu, þótt það sé heimilt kjósi aðilar að gera það. Hægt er að skila aflaupplýsingum á þar til gerðu formi Fiskistofu.“