Í yfirlýsingu skora 34 veiðifélög og náttúruverndarsamtök á sveitastjórn Norðurþings að „falla frá öllum sjókvíaeldisáformum við Raufarhöfn og beita sér ekki fyrir því að friðunarsvæðum verði breytt,“ að því er fram kemur í fréttatilkynningu sem send hefur verið fjölmiðlum.
Þar er jafnframt skorað á Svandísi Svavarsdóttur, matvælaráðherra, að „festa í lög ákvæði um hvar bannað er að stunda sjókvíaeldi og jafnframt stækka það svæði svo að Eyjafjörður og Öxarfjörður verði friðunarsvæði.“
Tilefni yfirlýsingarinnar eru fyrirhuguð áform Bjargar Capital um að koma upp tíu þúsund tonna laxeldi á Raufarhöfn, bæði í sjó og á landi. Íbúar á svæðinu hafa í könnun sagst almennt fylgjandi áformunum.
Á friðunarsvæði
Vekja félögin 34 athygli á því að fyrirhugað eldi sé innan friðunarsvæðis sem ætlað er að vernda villta stofna og skilgreind voru 2004 í auglýsingu þáverandi landbúnaðarráðherra, Guðna Ágústsonar. Afmörkun þessara svæða var þó ekki fest í lög.
Friðunarsvæðin eins og þau voru skilgreind 2004.
„Áform Bjargar Capital á Raufarhöfn eru innan friðunarsvæðis og gera áformin ráð fyrir því að eldi verði stundað í nálægð við mikinn fjölda laxveiðiáa. Þar má helst nefna Deildará, Ormarsá, Laxá í Aðaldal, Skjálfandafljót, Svalbarðsá, Sandá, Hölkná, Hafralónsá, Miðfjarðará, Bakkaá, Selá, Vestudalsá, Hofsá, Sunnudalsá og Jöklu. […] Allar þessar ár eru í innan við 150km fjarlægð frá staðsetningu eldisins. Villtur laxastofn í Deildará og Ormarsá væri dauðadæmdur ef þessi áform gengu eftir, en eldið myndi fara fram við ósa þeirra,“ segir í yfirlýsingunni.
Fullyrða félögin að áform fjárfestingafélagsins gangi gegn vísindalegri ráðgjöf er snýr að áhrifum sjókvíaeldis á villta laxastofna. „Ef þessi áform yrðu heimiluð væri það ekkert annað en aðför að íslenskri náttúru og þeim fjölmörgu fjölskyldum sem hafa lifibrauð af hlunnindum laxveiðiáa.“