Engar vísbendingar eru um að eldur um borð í Erling KE 140 um áramótin hafi kviknað með saknæmum hætti, segir í nefndaráliti siglingasviðs Rannsóknanefndar samgönguslysa.
Nefndin telur að upptök eldsins hafi verið í eða við hleðslu AIS-staðsetningarbúnaðar í afturhorni setustofu bátsins, sem lá við landfestar í Njarðvíkurhöfn. Mikið tjón varð um borð í skipinu.
Raftæki og fjöltengi
Undir borðinu í setustofunni var AIS-staðsetningarbúnaður fyrir netabaujur í hleðslu, rafmagnsdrifinn flugnabani var festur upp fyrir ofan borðið og útvarpstæki var á hillu þar fyrir ofan. Búnaðurinn hafði verið í sambandi við rafmagn. Staðsetningarbúnaðurinn var tengdur í tvö fjöltengi með slökkvirofum. Tíu hleðslustæði fyrir tækin voru undir borðinu og staðsetningartæki voru í þeim öllum en ekki lá fyrir hvað mörg þeirra voru í sambandi við fjöltengin.
Fjórir skipverjar voru við vinnu við skipið milli jóla og nýárs við að undirbúa það til veiða og höfðu yfirgefið skipið síðdegis fimmtudaginn 30. desember. Erling KE hafði ekki verið á veiðum síðan í apríl 2021, en hefja átti netaveiðar í byrjun janúar 2022.
Miklar skemmdir voru eftir brunan. Erling KE
Ljósmynd/Aðsend
Þegar skipverjar mættu til skips að morgni 2. janúar var brunaviðvörunarkerfið í gangi og í ljós kom að eldur hafði komið upp í setustofu áhafnar. Miklar skemmdir voru á henni eftir eldinn og sót út um allar íbúðir. Íbúðirnar höfðu verið lokaðar og eldurinn að líkindum kafnað sökum súrefnisskorts.
„Nefndin telur að til að auka öryggi skipverja eigi ekki að vera með búnað sem tilheyrir veiðarfærum í hleðslu inni í vistaverum,“ segir í sérstakri ábendingu.
Erling KE var myndarlegt skip.
mbl.is/Sigurður Bogi