„Ég hélt ég væri að fara að deyja“

Albert Páll Albertsson gerði hlé á sjómennskunni eftir að hann …
Albert Páll Albertsson gerði hlé á sjómennskunni eftir að hann ásamt Emilíu Halldórsdóttur eignaðist soninn Albert Dór Albertsson. Hann snéri á sjó á ný í janúar og þegar hann lenti útbyrðis í mars var það sonurinn sem veitti honum kraft til að komast lífs af. Ljósmynd/Aðsend

Skagamaðurinn og sjómaðurinn Albert Páll Albertsson þakkar fyrir að vera á lífi eftir eina erfiðustu lífsraun sem lagst getur á íslenskan sjómann – að lenda meiddur útbyrðis í köldum sjó þegar myrkrið er að skella á. Hann segir skjótum viðbrögðum skipsfélaga sinna og ólýsanlegum lífskrafti að þakka að betur fór en á horfðist.

Loðnuvertíðin 2021/2022 var ein sú stærsta í tvo áratugi og réð hinn 26 ára gamli Albert Páll sig á Víking AK-100 í janúar. Þetta var ekki í fyrsta sinn sem hann fór á sjó og var hann að snúa aftur eftir að hafa gert hlé á sjómannslífinu um stund þegar hann ásamt unnustu sinni, Emilíu Halldórsdóttur, eignaðist soninn Albert Dór.

Undir lok mars var farið að líða að síðustu dögum vertíðarinnar og var Víkingur á veiðum úti fyrir Sandvík á Reykjanesi þann 20. mars. Í þessum túr var Albert Páll að gegna starfi háseta þrátt fyrir að vera – eins og faðir hans Albert Sveinsson, skipstjóri á Víkingi – menntaður stýrimaður.

Albert Páll er vanur sjómaður þrátt fyrir ungan aldur.
Albert Páll er vanur sjómaður þrátt fyrir ungan aldur. mbl.is/Börkur Kjartansson

Það sem mátti ekki gerast

Líða var farið á kvöld og komið rökkur þennan örlagaríka dag. Loðnuveiðarnar höfðu orðið fyrir töluverðum truflunum allan veturinn vegna stöðugra lægða en þennan dag var kalt en ekki mikill vindur og ölduhæðin ekkert til að tala um. Frekar góð skilyrði til veiða. Við þessar aðstæður var kjörið að koma loðnunótinni í sjóinn.

Albert Páll var að sinna hefðbundnum störfum sem hann þekkir vel. „Þetta er svolítið erfitt að útskýra hvað gerðist, fyrir fólki sem veit ekki hvernig þetta virkar. Það er eitthvað sem heitir fallhlíf sem er kastað í sjóinn þegar loðnunótin — sem er veiðarfærið — er látin fara. Þá er þessari fallhlíf kastað í sjó og hún togar veiðarfærið. Ég var á þessari fallhlíf og annar með mér. Ég er búinn að gera þetta margoft. Maður passar sig alltaf á að flækjast ekki í þetta en einhvern veginn gerðist það, ég veit ekki hvernig. Ég sé bara allt í einu að fóturinn er kominn í einn hring og ég næ ekki að losa mig.“

Svo gerist það sem átti ekki að gerast – fallhlífinni er sleppt. „Um leið og búið er að sleppa eru bara nokkrar sekúndur þar til þetta er farið og ég fór með. Mér skilst á félaga mínum sem var við hliðina á mér að ég hafi farið einhverja átta metra út frá skipinu og fjóra metra niður.“

Hvað fer í gegnum huga manns í þessum aðstæðum? „Ég hélt ég væri bara að fara að deyja.“

Fyrir son sinn

Albert Páll er skyndilega kominn í ískaldan sjóinn sem umlykur allt en þar gerist hálfgert kraftaverk. „Ég næ að losa stígvélið þegar ég er í sjónum. Um leið og það losnar kemur einhver kraftur, ég hugsaði bara að ég væri ekki að fara að láta son minn verða föðurlausan og að ég væri að fara að bjargast.“ Hann kemst upp á yfirborðið og nær að blása lofti í björgunarvestið.

„Félagi minn kallar á alla um borð að ég hafi farið út í. Það bregðast allir fljótt við, en í raun geta þeir ekki snúið við. Veiðarfærið er farið út í. Þeir geta ekkert gert nema að koma léttabátnum út í og reyna að ná í mig, en mig byrjar að reka frá þeim.“

Það hafi verið mikil hending að hafa verið með skærgulan hjálm að sögn Alberts Páls þar sem hann hafi því sést vel í sjónum þrátt fyrir að birtan hafi verið dvínandi. „Pabbi minn er skipstjóri þarna og sjokk fyrir hann að vera uppi í brú þegar þetta gerist. Hann missir aldrei augun af mér og sér alltaf gula hjálminn í sjónum þó að ég sé kominn svolítið langt frá þeim.

Svo er tæki í þessum vestum sem heitir Sjókall, sem gefur upp staðsetninguna mína. Sem betur fer eru nokkur skip í kring og pabbi nær að leiðbeina færeysku skipi sem heitir Høgaberg. Það kom til mín og náði að kasta björgunarhring. Þeir kasta nokkrum sinnum og ég náði honum fyrir rest. Það var rosalega góð tilfinning.“

Víkingur AK-100.
Víkingur AK-100. Ljósmynd/Brim

Ólýsanleg tilfinning

Albert Páll segir skipverjana á Høgaberg hafa verið að búa sig undir að hífa hann um borð en um það leyti sér hann félaga sína af Víkingi koma á fullri ferð á léttabáti skipsins. Óhætt er að segja það hafa verið mikinn létti. „Maður getur eiginlega ekkert lýst þeirri tilfinningu. Þeir eiga ótrúlega mikið hrós skilið, þeir á Víkingi, hvað þeir voru fljótir að bregðast við og hvað þeir eru í góðri æfingu.“

Hann segir félaga sína hafa sagt sér að hann hafi verið um 20 mínútur í sjónum, en telur sjálfur erfitt að gera sér grein fyrir tímanum.

Tuttugu mínútur í köldum sjónum er hins vegar ekkert spaug enda dregur ofkæling verulega úr lífslíkum og kveðst Albert Páll ekkert hafa fundið fyrir kuldanum. „Um leið og var búið að hífa mig upp úr í léttabátinn fór ég að titra. Það var eins og líkaminn hafi slökkt á allri tilfinningu, ég bara fann ekki fyrir neinu. Ég brotna illa, dett úr lið og finn ekki fyrir neinum áverkum fyrr en ég er kominn upp og inn í skip.“

Fullur þakklætis

Landhelgisgæslunni barst á níunda tímanum hið umrædda kvöld beiðni um aðstoð vegna skipverja sem féll útbyrðis og var tafarlaust þyrla send á vettvang. Eins voru kallaðar út sjóbjörgunarsveitir á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Suðurnesjum. „Þyrlan sækir mig og fer með mig á spítalann í Fossvogi og ég er þar eina nótt og svo fluttur upp á Skaga. Það átti að gera aðgerð á mér en það var ekki hægt strax út af því hvað þetta var illa farið og bólgið. Þannig að ég þurfti að bíða í tvær vikur eftir aðgerð.“ Albert Páll fór í aðgerðina fyrir um viku og hefur hún tekist vel, en það mun taka tíma að ná fullum bata.

Brim, sem gerir Víking út, bauð um leið áfallahjálp vegna slyssins og segir hann þá aðstoð hafa komið sér vel. „Þetta eru skrýtnar hugsanir sem koma stundum. Allt þetta ef og hefði. Maður er þakklátur fyrir að ekki fór verr. Þetta var bara óheppni.“

Undravert þykir að eins vel fór og raun ber vitni. „Einhvern veginn gekk allt eins og það átti að ganga – allir þekktu sitt hlutverk. Maður er bara þakklátur fyrir lífið og þakklátur skipsfélögunum mínum. Ég þakka öllu þessu fólki sem kom að þessu. Strákunum á Víkingi, á Høgaberg, Gæslunni og fjölskyldunni minni sem hefur verið mikill stuðningur,“ segir Albert Páll.

Spurður hvort líkur séu á að hann snúi aftur á sjó má merkja áberandi hik. „Ég sé mig ekki fara á sjóinn aftur eins og staðan er núna. Fjölskyldan mín gæti örugglega ekki séð það fyrir sér heldur,“ svarar hann að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 27.1.25 559,01 kr/kg
Þorskur, slægður 27.1.25 666,44 kr/kg
Ýsa, óslægð 27.1.25 350,84 kr/kg
Ýsa, slægð 27.1.25 323,69 kr/kg
Ufsi, óslægður 27.1.25 177,68 kr/kg
Ufsi, slægður 27.1.25 258,31 kr/kg
Undirmálsufsi, óslægður 26.7.23 10,00 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 21.1.25 249,00 kr/kg
Djúpkarfi 6.1.25 90,00 kr/kg
Gullkarfi 27.1.25 218,59 kr/kg

Fleiri tegundir »

27.1.25 Hilmir ST 1 Línutrekt
Þorskur 4.586 kg
Ýsa 2.419 kg
Samtals 7.005 kg
27.1.25 Einar Guðnason ÍS 303 Lína
Ýsa 5.665 kg
Þorskur 4.118 kg
Steinbítur 492 kg
Karfi 30 kg
Langa 18 kg
Keila 11 kg
Samtals 10.334 kg
27.1.25 Hlökk ST 66 Landbeitt lína
Þorskur 4.289 kg
Ýsa 2.357 kg
Steinbítur 29 kg
Samtals 6.675 kg
27.1.25 Hrefna ÍS 267 Landbeitt lína
Þorskur 7.631 kg
Ýsa 1.624 kg
Steinbítur 1.096 kg
Skarkoli 17 kg
Langa 5 kg
Samtals 10.373 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 27.1.25 559,01 kr/kg
Þorskur, slægður 27.1.25 666,44 kr/kg
Ýsa, óslægð 27.1.25 350,84 kr/kg
Ýsa, slægð 27.1.25 323,69 kr/kg
Ufsi, óslægður 27.1.25 177,68 kr/kg
Ufsi, slægður 27.1.25 258,31 kr/kg
Undirmálsufsi, óslægður 26.7.23 10,00 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 21.1.25 249,00 kr/kg
Djúpkarfi 6.1.25 90,00 kr/kg
Gullkarfi 27.1.25 218,59 kr/kg

Fleiri tegundir »

27.1.25 Hilmir ST 1 Línutrekt
Þorskur 4.586 kg
Ýsa 2.419 kg
Samtals 7.005 kg
27.1.25 Einar Guðnason ÍS 303 Lína
Ýsa 5.665 kg
Þorskur 4.118 kg
Steinbítur 492 kg
Karfi 30 kg
Langa 18 kg
Keila 11 kg
Samtals 10.334 kg
27.1.25 Hlökk ST 66 Landbeitt lína
Þorskur 4.289 kg
Ýsa 2.357 kg
Steinbítur 29 kg
Samtals 6.675 kg
27.1.25 Hrefna ÍS 267 Landbeitt lína
Þorskur 7.631 kg
Ýsa 1.624 kg
Steinbítur 1.096 kg
Skarkoli 17 kg
Langa 5 kg
Samtals 10.373 kg

Skoða allar landanir »