Ný undirstöðugrein að taka á sig mynd

Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri Geo Salmo, segir að samanlagt útflutningsverðmæti afurða …
Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri Geo Salmo, segir að samanlagt útflutningsverðmæti afurða allra þeirra landeldisstöðva sem eru á teikniborðinu verði á við allt að þriðjung af útflutningsverðmæti íslenskra sjávarafurða í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fram undan er mikil uppbygging í laxeldi á landi. Hjá Geo Salmo á Þorlákshöfn verða næringarefni úr affalli laxeldisins notuð í grænmetisræktun.

Framkvæmdir munu senn hefjast við nýja laxeldisstöð Geo Salmo steinsnar frá Þorlákshöfn. Um er að ræða landeldisstöð sem mun framleiða allt að 24.000 tonn af laxi árlega en framleiðslugeta fyrsta áfanga eldisstöðvarinnar verður á bilinu 6.000 til 8.000 tonn.

Jens Þórðarson er framkvæmdastjóri Geo Salmo en að verkefninu stendur hópur íslenskra fjárfesta: „Fleiri sambærileg verkefni eru fyrirhuguð eða þegar komin af stað á suðvesturhorninu. Þannig hyggst Samherji reisa um eða yfir 40.000 tonna eldisstöð og fyrirtækið Landeldi verður með starfsemi nokkrum lóðum frá okkur með framleiðslu af svipaðri stærðargráðu. Þá er fyrirhugað sambærilegt landeldi í Vestmannaeyjum og þegar Geo Salmo er bætt við fer framleiðslugeta þessara laxeldisstöðva að slaga í 100.000 tonn,“ segir Jens.

„Má reikna með að samanlagt útflutningsverðmæti þeirra laxaafurða sem landeldisstöðvarnar munu framleiða eigi eftir að jafnast á við fjórðung og jafnvel þriðjung af útflutningsverðmæti íslenskra sjávarafurða í dag og bætist við það sem nú er alið í sjó. Þarna er því að verða til öflug ný undirstöðugrein á Íslandi – ekki er neinum blöðum um það að fletta.“

Sex tonn af káli með hverju tonni af laxi

Að sögn Jens komu eigendur Geo Salmo auga á að framfarir í laxeldi á landi hafa skapað aðrar og betri rekstrarforsendur fyrir laxeldi af þessu tagi og eru aðstæður mjög heppilegar á Reykjanesinu. Lítið svigrúm er til að bæta við fleiri sjókvíaeldisstöðum og er greinin í vaxandi mæli að færa sig annaðhvort upp á land eða út á rúmsjó. Betri búnaður og meiri reynsla af laxeldi á landi þýðir að þrátt fyrir að fjárbindingin sé meiri þá er framleiðslan stöðug og rekstrarkostnaðurinn jafnvel ívið lægri í landeldi en í sjókvíaeldi og hægt að framleiða á landi vöru á samkeppnishæfu verði, sér í lagi ef gott aðgengi er að hreinu vatni og raforkuverði er stillt í hóf.

Í kjarnateymi Geo Salmo er valinn maður í hverju rúmi og býr fyrirtækið að fólki með mikla reynslu úr fiskeldi á Íslandi og erlendis auk þess að félagið nýtur ráðgjafar Norðmanna. Verður eldisstöðin m.a. hönnuð m.t.t. þess að tvinna saman laxeldi og grænmetisrækt, þar sem næringarefni úr úrgangi frá laxinum eru nýtt sem áburður fyrir grænmetið:

„Við munum tengja affallið úr seiðaeldinu við gróðurhús en í því eru efni á borð við nitur og fosfór sem grænmetið þrífst vel á. Látum við affallið leika um ræturnar á grænmetinu sem þarf þá engan frekari áburð. Megum við eiga von á því að fyrir hvert tonn af fóðri fáum við tonn af laxi, og að auki allt að sex tonn af grænmeti eins og t.d. káli,“ útskýrir Jens.

Þegar Geo Salmo hefur náð 24.000 tonna stærð munu í …
Þegar Geo Salmo hefur náð 24.000 tonna stærð munu í kringum 100 til 150 manns starfa hjá fyrirtækinu. mbl.is/Helgi Bjarnason

Sjúkdóma- og lyfjalaus fiskur

Það er ekki síst grunnvatnið sem gerir Reykjanesið að góðum valkosti fyrir fiskeldi af þessu tagi en Jens bendir á að nálægðin við vöruflutningahöfnina í Þorlákshöfn og við Keflavíkurflugvöll komi sér líka vel: „Í landeldisstöðvum eru tveir valkostir í boði: annars vegar að nota gegnumstreymiskerfi þar sem nýtt vatn berst í sífellu inn í stöðina, og hins vegar að nota gjörnýtingarkerfi þar sem sama vatnið er notað í hringrás, hreinsað og síað í sífellu. Gjörnýtingarkerfið hefur ekki sannað sig enn þá sem heppilegt fyrir áframeldi á matfiski en gegnumstreymiskerfið hvílir á nægu framboði af hreinu vatni.“

Mun Geo Salmo sækja vatn úr borholum undir eldisstöðinni: „Þetta er vatn sem hefur hreinsast við það að renna í gegnum gegndræp hraunlögin á Reykjanesinu, en ræktunin fer að öðru leyti fram í lokuðu kerfi þar sem við getum gjörstjórnað öllum þáttum sem skipta máli fyrir vöxt og heilsu fisksins.“

Þorlákshöfn.
Þorlákshöfn. mbl.is/Árni Sæberg

Hefur landeldið einmitt þann kost fram yfir eldi í sjókvíum að sníkjudýr og sjúkdómar komast ekki að fiskinum. Segir Jens að með því sé búið að fyrirbyggja alls kyns ófyrirsjáanleg áföll sem annars gætu dregið úr framleiðslumagninu eða kallað á aukinn kostnað, s.s. vegna lyfjagjafar. „Þegar dæmið er reiknað til enda eigum við að geta haft sömu álagningu á okkar fiski og sjókvíaeldisstöðvarnar, en í ljósi þess að fiskurinn er ræktaður í sjúkdóma- og lyfjalausu kerfi og að við getum lofað miklum stöðugleika í framleiðslu og afhendingum, þá er ekki ólíklegt að við getum beðið um hærra verð fyrir vöruna en gengur og gerist fyrir eldislax úr sjókvíum.“

Dýravelferðar- og umhverfismál koma líka við sögu og segir Jens að þar sem stýra megi umhverfi laxins af nákvæmni séu t.d. engar líkur á að t.d. þörungavöxtur eða hitastigsbreytingar valdi því að fiskurinn þrífist illa. Er heldur engin hætta á að eldislax sleppi út í náttúruna eða lífræn efni frá fiskeldinu berist út í lífríkið í kring. „Við getum meira að segja stýrt flæðishraða vatnsins í gegnum eldískvíarnar til að laxinn hreyfi sig meira og fáum þá um leið vöðvameiri fisk með minna fituhlutfalli sem er það sem sumir neytendur sækjast eftir.“

Allt að 150 manna vinnustaður

Snemma á næsta ári mun seiðaeldi hefjast í seiðaeldisstöð sem félagið á í Landsveit og gert ráð fyrir að framkvæmdir í Þorlákshöfn hefjist um svipað leyti. Áætlaður framkvæmdatími er 12 til 18 mánuðir og tekur síðan ár að ná upp fullri starfsemi. Eru því, allt talið, um það bil þrjú og hálft ár þar til rekstur landeldis Geo Salmo verður kominn í eðlilegt horf. „Fiskeldisstöðin sjálf er í eðli sínu ekki mjög mannaflsfrek en þegar við höfum náð 24.000 tonna stærð getum við búist við að þurfa um 100 til 150 starfsmenn,“ segir Jens.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 20.12.24 534,99 kr/kg
Þorskur, slægður 20.12.24 714,42 kr/kg
Ýsa, óslægð 20.12.24 303,74 kr/kg
Ýsa, slægð 20.12.24 187,94 kr/kg
Ufsi, óslægður 20.12.24 10,95 kr/kg
Ufsi, slægður 20.12.24 112,85 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 18.12.24 42,00 kr/kg
Djúpkarfi 8.11.24 179,00 kr/kg
Gullkarfi 20.12.24 67,60 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

21.12.24 Kristján HF 100 Lína
Karfi 261 kg
Þorskur 203 kg
Keila 107 kg
Ýsa 37 kg
Samtals 608 kg
21.12.24 Benni ST 5 Landbeitt lína
Þorskur 11.697 kg
Ýsa 99 kg
Steinbítur 45 kg
Keila 4 kg
Samtals 11.845 kg
21.12.24 Björg EA 7 Botnvarpa
Þorskur 103.876 kg
Ýsa 944 kg
Samtals 104.820 kg
20.12.24 Guðmundur í Nesi RE 13 Botnvarpa
Karfi 189.310 kg
Þorskur 103.686 kg
Grálúða 54.139 kg
Gulllax 9.379 kg
Blálanga 7.603 kg
Ufsi 2.610 kg
Hlýri 1.608 kg
Steinbítur 1.339 kg
Ýsa 605 kg
Langa 334 kg
Arnarfjarðarskel 207 kg
Keila 76 kg
Kolmunni 26 kg
Samtals 370.922 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 20.12.24 534,99 kr/kg
Þorskur, slægður 20.12.24 714,42 kr/kg
Ýsa, óslægð 20.12.24 303,74 kr/kg
Ýsa, slægð 20.12.24 187,94 kr/kg
Ufsi, óslægður 20.12.24 10,95 kr/kg
Ufsi, slægður 20.12.24 112,85 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 18.12.24 42,00 kr/kg
Djúpkarfi 8.11.24 179,00 kr/kg
Gullkarfi 20.12.24 67,60 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

21.12.24 Kristján HF 100 Lína
Karfi 261 kg
Þorskur 203 kg
Keila 107 kg
Ýsa 37 kg
Samtals 608 kg
21.12.24 Benni ST 5 Landbeitt lína
Þorskur 11.697 kg
Ýsa 99 kg
Steinbítur 45 kg
Keila 4 kg
Samtals 11.845 kg
21.12.24 Björg EA 7 Botnvarpa
Þorskur 103.876 kg
Ýsa 944 kg
Samtals 104.820 kg
20.12.24 Guðmundur í Nesi RE 13 Botnvarpa
Karfi 189.310 kg
Þorskur 103.686 kg
Grálúða 54.139 kg
Gulllax 9.379 kg
Blálanga 7.603 kg
Ufsi 2.610 kg
Hlýri 1.608 kg
Steinbítur 1.339 kg
Ýsa 605 kg
Langa 334 kg
Arnarfjarðarskel 207 kg
Keila 76 kg
Kolmunni 26 kg
Samtals 370.922 kg

Skoða allar landanir »

Loka