Hvarf makrílsins flókið viðfangsefni

Anna Heiða Ólafsdóttir, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, segir fleira en umhverfisþætti …
Anna Heiða Ólafsdóttir, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, segir fleira en umhverfisþætti ástæðu þess að makríll sést minna við Íslandsstrendur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Athygli vekur að hitastig sjávar eða magn átu virðist ekki útskýra hvers vegna makríl hafi fækkað í íslenskri lögsögu samkvæmt niðurstöðum úr uppsjávarleiðangri Hafrannsóknastofnunar sem fram fór síðasta sumar.

„Breytingar á umhverfisskilyrðum einar og sér geta ekki útskýrt af hverju það var lítið af makríl við Ísland bæði 2020 og 2021. Sjórinn var nógu heitur fyrir makríl í júlí og átumagn var í meðallagi. Makríll étur aðallega rauðátu og magn hennar er mælt á hverri stöð þar sem þéttleiki makríls er mældur. Það eru engar augljósar skýringar á því hvers vegna vesturganga makríls inn í íslenska landhelgis hefur minnkað mikið undanfarin tvö sumur,“ segir Anna Heiða Ólafsdóttir, doktor í fiskifræði hjá uppsjávarsviði Hafrannsóknastofnunar.

Anna Heiða segir eðlilegt að byrja á að líta til umhverfisþátta þegar leitað er að skýringu á að makríl fækki í lögsögunni þar sem tegundin er viðkvæm fyrir hitastigi og oft er hitastig sjávar við Ísland á mörkum þess sem tegundin þrífst í.

Árni Friðriksson RE.
Árni Friðriksson RE. mbl.is/Þorgeir

Uppsjávarleiðangurinn var farinn á rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni í júlí á síðasta ári og hafa niðurstöðurnar verið birtar á vef Hafrannsóknastofnunar. Á þessum tíma mældist yfirborðshitastig yfir níu gráðum á landgrunninu og grunnsævissvæðum vestur og suðvestur af landinu, sem og á Irmingerhafi. Á þessum svæðum veiddist lítið sem ekkert af makríl þrátt fyrir að gögn hafi sýnt fram á að makríllinn þarf yfirborðshitastig sem er að lágmarki sjö gráður og er aðeins hægt að finna makríl í miklu magni á svæðum þar sem hitinn er yfir níu gráður.

Jafnframt virtist engu skipta hvort var að finna mikið eða lítið dýrasvif, makríllinn lét ekki sjá sig nema í takmörkuðu magni. „Það eru fleiri þættir en einungis umhverfisþættir sem hafa áhrif á sumarfæðugöngu makríls í Norðurhöfum,“ fullyrðir Anna Heiða.

Hrygnir norðar

En er hægt að útiloka að hitastig sjávar sé skýring þess að makríllinn sé ekki við Íslandsstrendur?

„Já, að það sé eitt og sér skýringin enda er nógu heitt í júlí þegar leiðangurinn fer fram. Við erum vinna greiningu á hitastigi í yfirborðslagi sjávar við Ísland frá maí fram í júlí til að athuga hvort hitastig í byrjun fæðugöngunnar og fram að leiðangrinum er farið hafi áhrif á útbreiðslu makríls í júlí. Í gögnunum, sem er ekki búið að birta, sjáum við að það var mun kaldara fyrir austan landið vorið 2020 og 2021 samanborið við fyrri ár. Það hefur verið að aukast straumur af köldum sjó frá norðurheimskautinu austur fyrir landið og inn í Noregshafið á vorin og sumrin. Það er spurning hvort þessi kalda tunga sé að stoppa makrílinn þegar hann er á vorin að ákveða hvort hann haldi vestur til suðurstrandar Íslands eða norður í Noregshaf,“ svarar Anna Heiða.

Hún bendir á að makríllinn sé farinn að hrygna norðar í Noregshafi í einhverju magni en aðalhrygningarsvæðið er vestur af Írlandi og nær hrygningarsvæðið suður eftir landgrunni Evrópu til Portúgals. „Þá spyr maður sig ef hann er byrjaður að hrygna svona norðarlega, er þá líklegra að sumarfæðuganga gangi mestmegnis í norður inn í Noregshaf? Væri hann líklegri til að beygja vestur til Íslands ef hrygningin væri takmörkuð við svæðið vestur af Írlandi? Fæðugangan tengist hrygningargöngunni því hann hrygnir og fer síðan beint í fæðugönguna, þannig að ef hrygningin færist um stað getur það haft áhrif á hvar makríllinn sækir fæðuna.“

Kort/mbl.is

Stofnstærðin hefur einnig áhrif

Mörg atriði geta átt þátt í að skýra það að makríllinn sást í litlu magni umhverfis Ísland sumarið 2020 og 2021, að sögn Önnu Heiðu sem vekur athygli á að makrílstofninn árið 2020 er metinn hafa verið 40% minni en árin 2014 og 2015 þegar stofninn var stærstur. „Það gerist sem sagt á sama tíma að stofninn er metinn stærstur þá var sumar útbreiðslusvæðið stærst. Þá var makríllinn dreifður eftir austurströnd Grænlands frá breiddargráðu 58°N til 66°N. Strax 2016 fór magnið að dragast saman í grænlenskri landhelgi og var orðið mjög lítið af honum þar sumarið 2019. Síðan fækkar honum rosalega mikið við Ísland sumrin 2020 og 2021.

Það eru líklega tengsl milli stofnstærðar og hversu stórt fæðusvæðið sé, en við getum ekki sagt hvort 40% minnkun í stofnstærð sé eina útskýringin. Okkur þykir það ljóst að þetta sé hluti af skýringunni en makríllinn fer enn mjög langt norður í Noregshaf, breiddargráða 77°N sumarið 2021. Það eru engin auðveld svör.“ Þá bendir hún einnig á að makrílstofninn sé metinn 3,5 milljónir tonna árið 2021 samkvæmt síðasta stofnmati. „Það er enn þá töluvert af makríl í sjónum en hann virðist ekki vilja koma til Íslands lengur.“

Stærð fisksins skiptir einnig máli þar sem stærsti fiskurinn gengur lengst frá hrygningarsvæðinu inn á sumarfæðusvæðið. „Við sjáum alltaf stærsta makrílinn fara lengst til norðurs í Noregshafi og lengst til vesturs í Íslandshafi. Það er enn þá stór makríll í stofninum og því ekki þannig að fiskurinn sé svo lítill að hann geti ekki synt inn í íslenska landhelgi.“

Flókið samspil ólíkra þátta

Alþjóðleg rannsóknarverkefni eru í gangi til að leita skýringa á breyttri sumarútbreiðslu makríls og eru uppi tilgátur um að rekja megi göngur makríls til árganga. „Árið 2010/2011 var mjög góð nýliðun í makríl og við tókum eftir því þá að það var þó nokkuð mikið af litlum makríl – sem sagt núll og eins árs – sem veiddist sem meðafli í haustrallinu við Íslandi. Það er svolítið eins og að þessir árgangar 2010 og 2011 hafi komið til Íslands strax á fyrsta ári,“ segir Anna Heiða.

Haustrall snýr fyrst og fremst að stofnmælingu botnfiska en makríll er uppsjávarfiskur. Anna Heiða upplýsir að ungviði makríls heldur sig niður við botninn á veturnar þar sem hann finnur æti, en lítill makríll hefur varla sést í haustralli sem meðafli síðan 2011.

„Við hörfum verið að velta því fyrir okkur hvort þessi árgangur [2010/2011] hafi verið rosalega stór, komið til Íslands á ungum aldri og svo haldið áfram að koma til Íslands eftir að hann byrjaði að taka þátt í fæðugöngunni. Svo er þessi árgangur í dag orðinn gamall, rúmlega tíu ára gamall og lítill hluti af stofninum, eða hvort hann sé bara hættur að koma hingað,“ segir hún.

Makríllinn er mikilvæg nytjategund.
Makríllinn er mikilvæg nytjategund. mbl.is/Árni Sæberg

Ljóst sé að margir samverkandi þættir séu að baki þess að makríllinn er ekki lengur í miklu magni í íslenskri lögsögu að mati Önnu Heiðu. Málið sé einfaldlega of flókið til þess að geta bent á einhvern einn þátt sem skýrir stöðuna.

Spurð hvort eitthvað bendi til þess að makríllinn einfaldlega hverfi úr íslenskum sjó svarar hún að það geti verið gott að skoða þekkingu á öðrum uppsjávarstofnum. „Norsk-íslenska síldin hefur verið mikið rannsökuð og við þekkjum hana best af þessum þrem stóru uppsjávarstofnum í norðurhöfum. Göngur hennar hafa breyst nokkuð á síðustu 50 árum. Þessar breytingar gerast oft þegar koma inn mjög stórir árgangar. Þegar kemur inn stór árgangur getur hann þróað með sér göngumynstur sem er ólíkt fyrri árgöngum og þá breytist útbreiðslan.

Það er spurning hvort það gerist það sama með makrílinn að hann muni halda sig meira í Noregshafi. Ef það kemur síðan annar stór árgangur eða tveir – eins og 2010 og 2011 – er spurning hvort hann mun breiða úr sér aftur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 21.1.25 608,58 kr/kg
Þorskur, slægður 21.1.25 681,62 kr/kg
Ýsa, óslægð 21.1.25 383,32 kr/kg
Ýsa, slægð 21.1.25 301,69 kr/kg
Ufsi, óslægður 21.1.25 261,00 kr/kg
Ufsi, slægður 21.1.25 302,81 kr/kg
Undirmálsufsi, óslægður 26.7.23 10,00 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 21.1.25 249,00 kr/kg
Djúpkarfi 6.1.25 90,00 kr/kg
Gullkarfi 21.1.25 332,43 kr/kg

Fleiri tegundir »

21.1.25 Stormur ST 69 Landbeitt lína
Þorskur 1.524 kg
Ýsa 886 kg
Steinbítur 2 kg
Samtals 2.412 kg
21.1.25 Hrefna ÍS 267 Landbeitt lína
Ýsa 4.944 kg
Steinbítur 1.881 kg
Þorskur 1.619 kg
Samtals 8.444 kg
21.1.25 Fríða Dagmar ÍS 103 Lína
Steinbítur 939 kg
Þorskur 244 kg
Ýsa 205 kg
Langa 118 kg
Hlýri 29 kg
Keila 25 kg
Ufsi 19 kg
Skarkoli 2 kg
Karfi 1 kg
Samtals 1.582 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 21.1.25 608,58 kr/kg
Þorskur, slægður 21.1.25 681,62 kr/kg
Ýsa, óslægð 21.1.25 383,32 kr/kg
Ýsa, slægð 21.1.25 301,69 kr/kg
Ufsi, óslægður 21.1.25 261,00 kr/kg
Ufsi, slægður 21.1.25 302,81 kr/kg
Undirmálsufsi, óslægður 26.7.23 10,00 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 21.1.25 249,00 kr/kg
Djúpkarfi 6.1.25 90,00 kr/kg
Gullkarfi 21.1.25 332,43 kr/kg

Fleiri tegundir »

21.1.25 Stormur ST 69 Landbeitt lína
Þorskur 1.524 kg
Ýsa 886 kg
Steinbítur 2 kg
Samtals 2.412 kg
21.1.25 Hrefna ÍS 267 Landbeitt lína
Ýsa 4.944 kg
Steinbítur 1.881 kg
Þorskur 1.619 kg
Samtals 8.444 kg
21.1.25 Fríða Dagmar ÍS 103 Lína
Steinbítur 939 kg
Þorskur 244 kg
Ýsa 205 kg
Langa 118 kg
Hlýri 29 kg
Keila 25 kg
Ufsi 19 kg
Skarkoli 2 kg
Karfi 1 kg
Samtals 1.582 kg

Skoða allar landanir »