„Þetta er líklega sjaldgæfasti bjór á Íslandi,“ segir Einar Örn Sigurdórsson, einn eigenda RVK brewing co., um Masago-bjórinn sem er sérbruggaður fyrir Icelandic Asia og Útgerðarfélag Reykjavíkur (ÚR). Masago er heiti yfir mikilvæga afurð sem notuð er í sushigerð og er hún unnin úr loðnuhrognum, en í bjórnum eru einmitt loðnuhrogn ásamt íslensku blóðbergi.
Í tilefni af sjávarútvegssýningunni í Barselóna á Spáni, Global Seafood Expo, sem hefst á morgun, vildu Icelandic Asia og ÚR bjóða viðskiptavinum sínum upp á eitthvað skemmtilegt og íslenskt, útskýrir Einar Örn spurður um tilurð bjórsins. Féll það í hlut Hjalta Einarssonar bruggara að skapa meistaraverkið og var markmiðið við gerð bjórsins að finna eitthvað sem myndi passa við sjávarfangið sem boðið er upp á á básunum, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Gerum ekki vonda bjóra
En er þetta gott? „Þetta er mjög góður bjór, þótt þetta hljómi kannski endilega vel. Maður finnur ekkert fiskibragð af bjórnum,“ segir Einar Örn. Hann útskýrir að bjórinn sé í góðu jafnvægi, að 10 kíló af hrognum séu í 500 lítrum af bjór og að blóðbergið kryddi bjórinn vægt. „Þetta er alveg frábær bjór.“
Það er hins vegar ekki einfalt fyrir íslenskan almenning að verða sér út um Masago-bjórinn þar sem megnið af honum hefur verið sent til Spánar og einhver hluti til Japans vegna markaðssetningar loðnuafurða þar í landi. Öll von er þó ekki úti og voru tveir kassar sendir til veitingastaðarins Sushi Social auk þess sem örfáir lítrar verða í boði á bruggstofu brugghússins að Snorrabraut í Reykjavík í vikunni.
RVK brewing co. hefur áður vakið athygli fyrir sérstaka bjórgerð. „Við öðluðumst heimsfrægð þegar við gerðum jólabjór með Ora-rauðkáli og grænum baunum. Við erum til í að prófa hluti en við gerum ekki vonda bjóra. Þetta þarf að vera gott.“