Íslenskur sjávarútvegur, og þá ekki síst íslenskt fiskeldi, á mikið inni að mati Dags Sletmos. Sletmo er aðstoðarframkvæmdastjóri norska bankans DNB en hann flutti erindi á ársfundi SFS sem haldinn var í Hörpu síðastliðinn föstudag.
Sletmo telur sennilegt að innan nokkurra ára verði útflutningsverðmæti íslensks laxeldis orðið meira en verðmæti íslenskra þorskafurða. Ekki nóg með það heldur gæti fiskeldið tekið fram úr hefðbundnum sjávarútvegi á næstu tíu árum líkt og gerst hefur í Noregi en þar myndar eldislax ríflega tvo þriðju af útflutningsverðmæti norskra sjávarafurða á meðan þriðjungur kemur frá fiskveiðum. „Og þar er ég aðeins að tala um laxeldi í sjó, en Ísland er líka komið vel af stað með fiskeldi á landi og býr að góðu framboði af hreinu vatni, jarðhita og ódýrri raforku sem gerir fiskeldið hagkvæmara en ella,“ útskýrir Sletmo.
„Fram undan er mikill vöxtur í laxeldi á svæðum eins og Bandaríkjunum og Kína og þróunin sú að reyna að færa framleiðsluna nær mörkuðunum en Ísland er þó vel í sveit sett með að flytja kældan eldislax til Bandaríkjanna sjóleiðina og varan fyrir vikið með tiltölulega smátt kolefnisspor komin á áfangastað.“
Meðal þeirra vandamála sem fiskeldi glímir við um þessar mundir er að fóðurkostnaður hefur snarhækkað. Sletmo bendir á að fóðurkaup séu stærsti kostnaðarliður fiskeldisstöðva og óhjákvæmilegt að dýrara fóður leiði til verðhækkana á eldisfiski. „En hafa verður í huga að hærri fóðurkostnaður hefur líka áhrif á landbúnað nema hvað þar eru áhrifin meiri enda fóðurnýtingin betri í fiskeldi mælt í framleiddu prótíni fyrir hvert kíló af fóðri. Eldisfiskur mun því hækka í verði en verð á öðrum prótíngjöfum mun hækka jafnmikið eða meira.“
Tíminn mun leiða í ljós hvort tekst að nota nýtt og ódýrara hráefni sem fóður og þannig draga úr kostnaði. Nefnir Sletmo að fjöldi verkefna sé í pípunum og vonir bundnar við að megi t.d. rækta þörunga sem fóðraðir eru á koltvísýringi og nýtast sem heilnæmt og umhverfisvænt fóðurhráefni. „Þróunin hefur farið hægt af stað og í Noregi eru ekki nema 0,4% af því fóðri sem laxeldisiðnaðurinn notar fengin úr nýjum tegundum af hráefni – en það eru þó samt 8.000 tonn af fóðri og á hlutfallið bara eftir að aukast.“
Þarf greinin líka að vara sig á hvaðan fóðrið er fengið og nefnir Sletmo að sojabaunir séu eitt helsta hráefnið sem notað er til fóðurgerðar. Þar er Brasilía stærsta framleiðslulandið og hefur átt sér stað mikil vitundarvakning um skaðsemi þess að ryðja regnskógum í burtu til að rýma fyrir landbúnaði. Segir Sletmo að neytendur og seljendur geri æ ríkari kröfur um sjálfbærni allrar virðiskeðju fiskeldis og þannig hafi norski laxeldisiðnaðurinn hlotið lof fyrir að nýta aðeins brasilískar sojabaunir sem vottað er að voru ræktaðar án þess að valda tjóni á regnskóginum.
„Krafan um sjálfbærni er fiskeldi í hag. Ef rétt er að veiðunum staðið er villtur fiskur sennilega sá sjálfbærasti prótíngjafi sem finna má, en eldisfiskur fylgir þétt á eftir og hafa orðið miklar framfarir á undanförnum 30-40 árum í þá átt að lágmarka umhverfisáhrif og hámarka skilvirkni fiskeldis. Er samanburðurinn fiskeldi líka í hag þegar skoðað er hve mikil kolefnislosun á sér stað við eldi dýra á landi, að ekki sé talað um það mikla magn af ferskvatni og allt það landrými sem þarf til að ala búfénað. Stendur landbúnaður frammi fyrir meiriháttar áskorun hvað varðar ofnýtingu á vatni og þau áhrif sem starfsemin hefur á fjölbreytileika lífríkisins.“
Íslenskur sjávarútvegur þarf líka, að mati Sletmos, að vera á varðbergi gagnvart þeim möguleika að þjóðir reisi nýja viðskiptamúra. Segir hann að atburðir undanfarinna ára hafi leitt til umræðu víða um heim um mikilvægi fæðuöryggis og þær hættur sem fylgja því ef fyrirtæki eru háð löngum og flóknum aðfangakeðjum. Í marga áratugi hefur þróunin verið í þá átt að opna markaði og fækka hindrunum en nú gæti sú þróun gengið til baka, a.m.k. að einhverju leyti.
„Á sama tíma sjáum við það gerast að staða stofnana eins og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar er tekin að veikjast. Norskt laxeldi hefur einmitt reitt sig mjög á samninga Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar á meðan Síle hefur frekar lagt áherslu á að gera tvíhliða samninga við sem flest lönd. Við gætum verið að sigla inn í tímabil þar sem ríki ættu að gera eins og Síle og gera samninga við sem flestar þjóðir, og tryggja að þessir samningar séu eins skýrir og afgerandi og kostur er.“
Einn af þeim áhættuþáttum sem Sletmo nefndi í erindi sínu er sú þróun sem er að eiga sér stað við notkun afurða úr jurtaríkinu til að framleiða nk. gervikjöt, eða hreinlega nota næringar- og vaxtarefni til að rækta kjötfrumur og búa þannig til kjötbita í vél.
Hann segir að hættan sem sjávarútvegi og fiskeldi stafar af þessari þróun sé „svartur svanur“, þ.e. að erfitt sé að meta með vissu hve mikil hættan er og hvað muni gerast en að áhrifin geti hugsanlega reynst mjög mikil ryðji ný vara sér til rúms.
„Við erum að sjá það gerast að prótínframleiðsla af þessu tagi er farin að verða þónokkuð umsvifamikil og vörurnar farnar að ná til hins almenna neytanda,“ segir hann en bætir við að til þessa hafi áherslan einkum verið á að þróa vörur sem geta komið í stað nautakjötsborgara og kjúklinganagga, og að enn virðist langt í að takist að búa til grænmetis-hnakkastykki eða frumuræktað flak af laxi.