Rússneskur hvítfiskur flæðir enn inn á markaði Evrópusambandsins, Bretlands og Bandaríkjanna þrátt fyrir yfirlýsingar um tollahækkanir og viðskiptabann. Miklir hagsmunir í birgðakeðjum er talið vera ástæðan.
Evrópusambandið innleiddi í apríl refsiaðgerðir sem setja takmarkanir á innflutning á rússnesku sjávarfangi, en svo virðist sem þær takmarkanir ná ekki til ufsa og þorsks. Fiskvinnslur víða í Evrópu hafa verið háðar rússnesku hráefni og eru þær sagðar hafa beitt stjórnvöldum sínum og framkvæmdastjórn sambandsins þrýstingi í þeim tilgangi að tryggja áfram aðgengi að hráefni. Hins vegar hefur Rússland misst stöðu sína sem viðskiptaland á sérkjörum.
Þá hefur rússneskum skipum verið meinað að koma til hafnar víða í Evrópu, meðal annars hér á landi, en í áraraðir hefur fiskur verið fluttur heill frosinn til Kína þar sem hann er forunninn. Fiskurinn hefur síðan verið endurfrystur og fluttir til áframvinnslu í Evrópu, Bandaríkjunum og Bretlandi.
Bandaríkin innleiddu í apríl bann á innflutningi á rússnesku sjávarfangi en fram hefur komið í umfjöllunum bandarískra miðla, eins og til að mynda fréttastofu NBC, að glufa er í lögunum sem lokar ekki á rússneskt sjávarfang sem unnið er í Kína. Hefur því alaskaufsi, rauðlax og krabbi sem veiddur er í Rússlandi haldið áfram að flæða inn á bandarískan markað í gegnum Kína.
Bresk stjórnvöld tilkynntu í mars að þau myndu innleiða 35 prósentustiga hækkun tolla á rússneskan hvítfisk. Innleiðing þessarar refsiaðgerðar var hins vegar sett á bið í kjölfar andmæla breskra verslana, veitingahúsa og fiskvinnslna. Þetta kemur fram í umfjöllun Guardian.
Þar segir að verslunarkeðjur sem lýstu því yfir að þær myndu sniðganga rússneskar vörur hafa haldið áfram að selja rússneskan fisk þrátt fyrir að hafa fjarlægt aðrar vörur svo sem rússneskan vodka. Eru meðal annars nefndar verslanir Sainsbury´s Tesco, Morrisons og Asda.
Rússneskur ufsi er sérstaklega fyrirferðamikill í Bretlandi en að sama skapi er mikið um rússneska ýsu og þorsk. Þessi hvítfiskur er alla jafna frosinn og er áfram unninn í Bretlandi og er talið að stöðvun innflutnings á þessum fiski myndi leiða til töluverðs samdráttar í fiskvinnslugeiranum með tilheyrandi áhrif á birgðakeðjur.
Er Guardian leitaði skýringa vísuðu margar verslunarkeðjur á samtök verslunnar í Bretlandi, British Retail Consortium, sem sagði Bretland háð Rússlandi hvað hvítfisk varðar og að flóknar birgðakeðjur gerðu það að verkum að erfitt væri að finna afurðir frá öðrum seljendum.