„Eftir tæpan áratug þar sem engin sýklalyf hafa verið notuð í íslensku fiskeldi brá svo við að grípa þurfti til lyfjagjafar í landeldi á bleikju síðastliðið haust,“ segir í ársskýrslu dýralæknis fiskisjúkdóma hjá Matvælastofnun. Enn hefur aldrei þurft að nota sýklalyf hjá þeim fyrirtækjum sem í dag stunda laxeldi í sjó á Vestfjörðum og Austfjörðum.
„Að þessu sinni þurfti að gefa alls 26 kg af lyfinu oxýtetracýklín í einni eldisstöð vegna kýlaveikibróður sem átti upptök sín í óbólusettri bleikju,“ segir í skýrslunni. Þar er jafnframt greint frá því að bakterían sem veldur þessum sjúkdómi sé „til staðar í umhverfi allra strandeldisstöðva þar sem einhver selta kemur við sögu“. Í yfirgnæfandi tilfella nær bólusetning að halda sýkingu af völdum bakteríunnar í skefjum en hún greinist á hverju ári í stökum villtum fiski sem er nýgenginn úr sjó í laxveiðiár allt í kringum landið.
Óvarin útiker
Þá greindust tvö tilfelli af rauðmunnaveiki í villtum laxaseiðum sem alin voru til fiskræktar fyrir laxveiðiár og var einnig sýklalyfjum beitt. Samkvæmt ársskýrslunni var sjúkdómurinn „fremur alvarlegs eðlis“ og kom upp í fimm útikerum í einni eldisstöð. Bakterían er sögð útbreidd í íslenskri náttúru og er fugl talinn einn helsti smitberinn á milli svæða og blossar sjúkdómur nánast undantekningarlaust upp í kerum sem standa óvarin utandyra.
„Algengt er að yfirvöld birti lyfjanotkun sem magn sýklalyfja per tonn af framleiddum sláturfiski og með slíkum umreikningi fáum við út að um 0,5 g af sýklalyfi hafi verið notuð fyrir hvert slátrað tonn árið 2021,“ segir í ársskýrslu dýralæknis fiskisjúkdóma.
Sérstaklega er vakin athygli á því að mikil breyting hefur orðið á þessum stuðli á síðastliðnum þremur áratugum, en hann var 150 g á hvert slátrað tonn árið 1990.