Fyrir lok ársins verður fyrsta kerið tekið í notkun í stækkaðri landeldisstöð Fiskeldis Samherja í Öxarfirði, Silfurstjörnunni, og verða næstu fjögur ker tekin í notkun á eins til tveggja mánaða millibili. Þetta kemur fram í færslu á vef Samherja.
Skóflustunga að stækkaðri eldisstöð var tekin í janúar og er nú þegar farið að móta fyrir fyrstu kerunum en þau verða fimm talsins og um helmingi stærri en þau sem fyrir eru. Ákvörðun um tvöföldun stöðvarinnar var tekin í fyrra og nemur kostnaðurinn um 1.500 milljónum króna.
Þegar stöðin er komin í fulla notkun mun framleiðslan vera þrjú þúsund tonn á ári og er ætlunin að gera ýmsar tilraunir í tengslum við nýjar eldisaðferðir svo sem stærri einingar. Reynslan sem fæst mun síðan nýtast í landeldisstöð Samherja á Reykjanesi, en þar er stefnt að framleiðslu 40 þúsund tonnum af eldislaxi á ársgrundvelli.
„Við ætlum að nýta okkur þá reynslu sem við öðlumst hérna fyrir norðan þegar uppbyggingin hefst fyrir alvöru fyrir sunnan. Auk þess var kominn tími á ýmsar uppfærslur í starfseminni, enda Silfurstjarnan á margan hátt komin nokkuð til ára sinna. Eftir stækkun verður reksturinn hagkvæmari,“ segir Arnar Freyr Jónsson, rekstrarstjóri Fiskeldis Samherja í Öxarfirði, í færslunni.
„Hérna á svæðinu eru starfsmenn nokkurra verktakafyrirtækja og stórvirkar vinnuvélar eru áberandi á svæðinu. Undirbúningurinn tók náttúrulega nokkurn tíma, svo sem vinna við skipulagsmál, leyfisumsóknir og fleira. Góður undirbúningur skiptir sköpum og þá verður sjálf uppbyggingin hnitmiðaðri en ella,“ segir Arnar Freyr.
Unnið er hörðum höndum að stækkun Silfurstjörnunnar.
Ljósmynd/Samherji