Síldarvinnslan hf. hagnaðist um 27,5 milljónir Bandaríkjadala, eða tæplega 3,6 milljarða íslenskra króna á fyrsta fjórðungi ársins. Hagnaðurinn eykst um meira en sex milljónir dala, eða 30%, milli tímabila en hann var rúmlega 21 milljón dala á sama tíma á síðasta ári.
Eignir Síldarvinnslunnar voru í lok tímabilsins 672 milljónir dala eða ríflega 87 milljarðar króna og hafa aukist um sex prósent frá áramótum.
Eigið fé fyrirtækisins nemur nú 451 milljón dala, eða tæplega 59 milljörðum króna. Það jókst um 6,6 prósent frá áramótum þegar það var 422 milljónir dala.
Eiginfjárhlutfall félagsins er 67,1%.
Forstjóri Síldarvinnslunnar, Gunnþór Ingvason, segir í tilkynningu til kauphallar að reksturinn hafi gengið vel á fyrsta ársfjórðungi. Mikið magn afurða hafi verið framleitt í vinnslum félagsins. „Það hefur mikið mætt á starfsfólki bæði til sjós og lands. Loðnuvinnsla var nánast samfelld frá áramótum til 25. mars í fiskimjölsverksmiðjum félagsins og hefur síðan haldið áfram í kolmunna. Skip félagsins fiskuðu yfir 80 þúsund tonn á fjórðungnum og voru framleidd tæp 51 þúsund tonn af afurðum,“ segir Gunnþór.
Þá segir hann að „loðnusprengjan“ sem fyrirtækið fékk í fangið á haustmánuðum hafi sprungið í andlitið á þeim. „En veðurfar og göngumynstur loðnunnar var okkur erfitt. Loðnan kom mun dreifðari upp að landinu þannig að meira var haft fyrir veiðunum. Auk þess sem veður voru okkur ekki hagfelld á mikilvægasta tímanum. Þessir þættir valda því að ekki tókst að veiða allan kvótann sem var gefinn út. En þrátt fyrir að kvótar næðust ekki var þetta frábær vertíð, mikil verðmæti voru unnin og verð fyrir afurðir eru góð. Hærri verð en áætlanir gerðu ráð fyrir vega að hluta til upp þann kvóta sem ekki náðist að nýta.“
Þá segir Gunnþór í tilkynningunni að markaðir fyrir framleiðsluvörur félagsins séu sterkir og verð víða í sögulegu hámarki. Megi þar sérstaklega nefna markað fyrir sjófrystar afurðir ásamt mjöl- og lýsismörkuðum.“
Þá segir hann að þrátt fyrir áfallið sem skall á með innrás Rússa í Úkraínu hafi tekist að spila úr málum þar og viðskipti haldi áfram við Úkraínu. „Náðst hefur lausn á þeirri kröfu sem við áttum þar útistandandi,“ segir Gunnþór í tilkynningunni.