Miklar verðhækkanir hafa verið á afurðaverði um heim allan og hefur það einnig haft áhrif á viðmiðunarverð sem er til grundvallar launum sjómanna. Þorskur hefur hækkað mest en töluverð hækkun er einnig í ýsu og ufsa. Viðmiðunarverð karfa hefur lítið breyst.
Viðmiðunarverð á fimm kílóa slægðum þorski er í júní 380,47 krónur á kíló, 108,52 krónum meira en í sama mánuði í fyrra. Hefur því viðmiðunarverð hækkað um tæp 40% á síðustu 12 mánuðum. Hæsta verð á tímabilinu var þó yfir vetrartímann, en í desember og janúar nam það heilum 383,13 krónum. Ef litið er til tveggja kílóa slægðrar ýsu, hefur viðmiðunarverð hækkað um þriðjung frá júní á síðasta ári eða 73,27 krónur á kíló. Hæsta viðmiðunarverðið fyrir ýsuna var þó í apríl, þegar fengust 313,12 krónur á kíló.
Í tilfelli ufsa hefur viðmiðunarverð hækkað um 43,41 krónu eða 30,6% og er verð fyrir júní hið hæsta sem fengist hefur fyrir tegundina á undanförnum 12 mánuðum. Karfinn hefur hins vegar hækkað mun minna, aðeins 4%.
Miklar verðhækkanir hafa verið á matvælum um heim allan á undanförnu ári og eru verðhækkanirnar á sjávarafurðum í takti við þá þróun. Mikil hækkun í ufsa vekur þó athygli, þar sem ódýr rússneskur ufsi streymir enn inn á evrópska markaði og vitað er til þess að alaskaufsi frá Rússlandi rati einnig inn á Bandaríkjamarkað í gegnum Kína. Víðtækar truflanir hafa þó verið á undanförnum misserum á flutningsleiðum og birgðakeðjum, ekki síst vegna harðra lokunaraðgerða, sem enn er beitt í Kína til að sporna gegn útbreiðslu kórónuveirufaraldursins.
Einnig er líklegt að ástandið í Kína hafi einnig áhrif á aðrar tegundir eins og þorsk, þar sem töluvert af fiski er fluttur með skipum frá Evrópu til vinnslu í Kína.
Viðmiðunarverð er lágmarksverð í viðskiptum milli skyldra aðila í sjávarútvegi, sem sagt þegar afurð er seld milli útgerðarhluta fyrirtækis og vinnslu, að því er fram kemur í lýsingu á hlutverki Verðlagsstofu skiptaverðs á vef stofnunarinnar. Úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna ákveður lágmarksverðið samkvæmt viðmiðum gildandi kjarasamnings milli Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka atvinnulífsins og Sjómannasambands Íslands. „Markmið aðila er að lágmarksverð miðist meðal annars að jafnaði við 75% af meðalverði á innlendum markaði síðastliðna þrjá mánuði.“
Það er síðan hlutverk Verðlagsstofu skiptaverðs að fylgjast með fiskverði og stuðla að réttu og eðlilegu uppgjöri á aflahlut sjómanna, eins og tilgreint er í lögum um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.
Verðlagsstofu-fyrirkomulagið hefur sætt nokkurri gagnrýni um árabil. Meðal annars hafa Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda talið þörf á að breyta fyrirkomulaginu, þannig að þeir sem eru með vinnslur en stunda ekki veiðar þurfi ekki að greiða mun hærra verð fyrir hráefni en þær vinnslur sem taka þátt í innri viðskiptum samþættra sjávarútvegsfyrirtækja.