Skipstjórinn Hafsteinn Guðnason frá Sandgerði fór fyrst á sjó 13 ára og var aðeins 19 ára þegar hann útskrifaðist úr Stýrimannaskólanum 1958. Hann hefur ekki verið aðgerðalaus eftir að hann kom í land fyrir margt löngu. Er til dæmis formaður Púttklúbbs Suðurnesja ásamt Aðalbergi Þórarinssyni og lætur til sín taka í Lionsklúbbi Keflavíkur. „Þeir hafa útnefnt mig skólastjóra kúttmagaskólans því ég kann tökin við að útbúa kúttmaga í þá, en nú verður reyndar að kalla þetta sjávarréttahlaðborð.“
Hafsteinn var ekki hár í loftinu þegar hann fékk skiprúm. „Ég fór nýfermdur, sem tvílembingur með eldri bróður mínum, á síld 1952. Við fórum upp á einn hlut á 38 tonna nótabát en afraksturinn var ekki mikill. Við fengum 210 mál og tunnur fyrsta sumarið, fórum út eftir 17. júní og komum heim í byrjun september.“
Nýr Muninn kom til Sandgerðis um áramótin 1955/1956 og var Guðni Jónsson, faðir Hafsteins, skipstjóri. „Ekki var kokkur á dagróðrabátum fyrr en 1955, aðeins matarkassi sem var fylltur fyrir hvern róður,“ segir Hafsteinn. „Pabbi sagði einfaldlega að staðan væri mín og ein vika í eldhúsinu hjá mömmu dugði vel á tveimur vertíðum. Þetta var góð reynsla.“
Núpsskóli í Dýrafirði fær hæstu einkunn hjá Hafsteini, „var besti skóli landsins“, áréttar hann. Þar hafi hann og þrjú systkini lært til manns og hann lært á tveimur vetrum það sem hefði tekið fjögur ár í Keflavík. „Þetta þýddi að ég var kominn tveimur árum fyrr út í atvinnulífið og ég veit ekki til þess að margir yngri en ég hafi útskrifast úr Stýrimannaskólanum.“
Í útskriftarhópnum voru 45 manns og árlega hittast þeir sem enn eru á lífi en að náminu loknu fór Hafsteinn á stærri skip og var starfandi skipstjóri í 20 ár. Hann byrjaði skipstjóraferilinn hjá Útgerð Guðmundar á Rafnkelsstöðum í Sandgerði 1962. Fyrst á Freyju, síðan á Kristjáni Valgeiri, sem áður hét Gjafar frá Vestmannaeyjum, þá Sigurpáli GK og sótti svo nýbyggðan Kristján Valgeir til Noregs 1966.
„Hann var svo seldur til Tanga á Vopnafirði, ég fylgdi með og var með hann í nokkur ár.“ Hafsteinn var einnig með Ásgeir RE hjá Ísbirninum í Reykjavík og endaði svo hjá Fiskiðjunni í Keflavík með Gígju RE, sem upphaflega var Kristján Valgeir. Þegar uppsjávarveiðar voru bannaðar allt árið 1982 hóf hann störf við hafnarvigtina í Keflavík, var síðan hjá Skipaafgreiðslu Suðurnesja og lauk starfsferlinum hjá Flutningaþjónustu Gunnars Rúnarssonar í Reykjanesbæ.
„Ég upplifði margt á sjómannsárunum, meðal annars „stóra slaginn“ á Siglufirði 1959,“ rifjar hann upp og vísar allri ábyrgð á hendur lögreglunni, en sjómönnum var kennt um. „Ég sá hvernig þetta byrjaði,“ heldur hann áfram og segir söguna, sem verður að bíða betri tíma. „Enginn getur hafa verið með táragasbyssu nema einhver sem var gerður út af lögreglunni og sá hefur verið mjög misvitur.“
Púttklúbbur Suðurnesja var stofnaður 1985 og hefur Hafsteinn verið virkur í klúbbnum frá aldamótum. „Ég fékk golfdelluna fertugur,“ útskýrir hann. Segist reyndar lítið hafa getað spilað þegar hann var til sjós en þó haft kylfurnar stundum með. „Það var til dæmis möguleiki að fara í golf á Siglufirði, en settið var samt aldrei notað þar.“
Hafsteinn kann vel við sig í Púttklúbbnum auk þess sem hann gengur reglulega og fer í leikfimi þrisvar í viku. Eldri borgarar komi gjarnan saman við sjúkrahúsið í Reykjanesbæ eftir hádegið og pútti þar á sumrin. „Hérna eru tveir 18 holu púttvellir og við röltum í um hálfan annan tíma. Lífið er dásamlegt og ég hvet aðra eldri borgara til að taka þátt í starfi eldra fólks, því það er frábært.“
Stjórn klúbbsins reynir að halda mót á tveggja vikna fresti. Hafsteinn segir að horfið hafi verið frá því að veita sigurvegurum bikara og verðlaunapeninga en í staðinn sé fólk verðlaunað með einhverju nytsamlegu, eins og til dæmis gjafakorti á veitingastað, þrifum á bíl og svo framvegis. „Fólk veit ekkert hvað það á að gera við þessa bikara eða safn verðlaunapeninga.“
Félagar klúbbsins hafa aðstöðu til þess að pútta inni á veturna. Hafsteinn segir að góð samvinna sé um rýmið við Akademíuna í Fimleikahöllinni. „Ég legg mikið upp úr sátt og samlyndi, því rifrildi er ekki mitt mottó.“