Höfundar skýrslunnar Rannsóknir á hrygningu steinbíts á Látragrunni leggja til að friðað verði allt hrygningarsvæði steinbíts á grunninu. Telja þeir mögulegt að botnvörpuveiðar skemmi gjótur á hafsbotni sem steinbíturinn notar við hrygningu en talið er að 40% steinbítshrygna hrygni á Látragrunni.
Steinbítur í heiminum á undir högg að sækja sem tegund bæði vegna ofveiði og búsvæðaröskunar vegna botnvörpuveiða. Hér á Íslandi virðist sem tekist hafi að snúa við neikvæðri þróun stofnsins á síðustu árum, bæði með friðun stærra svæðis á Látragrunni árið 2010 og að frá og með árinu 2013 hafa stjórnvöld farið eftir ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um veiðar á steinbít.
Svo virðist sem Látragrunn sé einstakt hrygningarsvæði fyrir steinbít. Þar virðast koma saman botngerð, hitastig og straumar sem henta hrygningu steinbíts vel og er svæðið þar að auki stórt, eða tæplega 2.000 km². Það er á ábyrgð Íslendinga að vernda þetta svæði eftir bestu getu. Í þessari skýrslu hefur sá möguleiki verið nefndur að hugsanlega sé botngerð Látragrunns að spillast smátt og smátt vegna botnvörpuveiða þ.e. að gjótur sem steinbítur getur hrygnt í séu að skemmast. Höfundar þessarar skýrslu telja því að hrygningarsvæði steinbíts á Látragrunni eigi að friða allt árið þangað til rannsóknir hafa farið fram á skaðsemi botnvörpuveiða á svæðinu,“ segir í skýrlunni sem birt hefur verið á vef Hafrannsóknastofnunar.
Í skýrslunni er vakin athygli á því að aðalhrygning steinbíts á Látragrunni á sér stað á einum og hálfum mánuði eftir að steinbítur kemur á svæðið í byrjun október. „Fljótlega fer hrygnan í gjótu sem hængur er í fyrir, hrygnan fer yfirleitt ekki úr henni en hængurinn fer stundum úr henni ef eitthvað er um að vera í kringum hana. Samkvæmt þessu er hugsanlegt að hængarnir á Látragrunni fari frekar úr gjótunni, eru hugsanlega að verja sitt óðal þegar t.d. botnvarpa nálgast hana og eru því á þessum tíma veiðanlegri en hrygnurnar. Mögulega er þetta skýring á því að hlutfall hænga í steinbítsafla á Látragrunni í ágúst og september er um 90%.“
Það getur haft alvarlegar afleiðingar að hængurinn sé veiddur á meðan hann á að vera að gæta hrognaklasanna og segja skýrsluhöfundar það geta valdið töluverðum afföllum að umönnun steinbítshængsins hverfi. „Steinbítshængurinn verndar hrognaklasann fyrir afráni, bakteríu- og sveppasýkingum, með því að þekja eggjaklasann sótthreinsandi slími sem hann sjálfur framleiðir. Einnig sér hængurinn til þess að öll hrognin í hrognaklasanum fái nóg súrefni, og þá sérstaklega þau sem eru miðlæg, með því að hreyfa stirtluna og mynda þannig sístreymi í gegnum eggjaklasann.“
Í skýrslunni segir að frá árinu 1999 hafi togveiðar á steinbít aukist á hrygningar- og klaktíma hans á Látragrunni, sem liggur vestur af Breiðafirði. Jafnframt er vakin athygli á því að Hafrannsóknastofnun hafi í þrígang á árunum 2001 til 2010 lagt til að svæði á Látragrunni yrði friðað til verndar steinbít en í öll skiptin hafi minna svæði verið friðað en lagt var til.
„Fjölmargar rannsóknir hafa farið fram á vegum Hafrannsóknastofnunar á Látragrunni. Frá árinu 2002 hefur gögnum úr afla steinbíts verið safnað markvisst til að meta hrygningartíma steinbíts. Árið 2011 var hluti af svæðinu fjölgeislamældur og botnsýni tekin til að rannsaka sjávarbotninn. Ári síðar var farinn sérstakur rannsóknarleiðangur, þar sem dreifing steinbíts á svæðinu var metin og hann merktur, m.a. með rafeindamerkjum. Einnig voru tekin snið með neðansjávarmyndavél og sæbjúgnaplóg til að meta fjölda hrognaklasa eða gjóta, ásamt athugun á botndýralífi. Engir hrognaklasar sáust með neðansjávarmyndavélinni eða fengust með sæbjúgnaplógnum, en steinbítar sáust í gjótum og er talið að þeir hrygni í þeim og gæti þar eggja. Fjöldi gjóta á Látragrunni var metinn um þrjár milljónir. Ekki var hægt að meta út frá fjölgeislamælingum hvar líklegast væri að finna gjótur á svæðinu.“
Þá segir að rannsóknir með merkingum hafi sýnt að steinbítur komi almennt á svæðið um miðjan ágúst og að hrygnurnar yfirgefi svæðið um áramótin en hængarnir fari í lok febrúar. „Þrjú mismunandi botndýrasamfélög voru greind á svæðinu út frá ljósmyndum. Látragrunn er líklega stærsta hrygningarsvæði steinbíts í heiminum og botngerð, hitastig og straumar virðast vera ákjósanleg fyrir hrygningu og þroskun hrognklasa steinbíts. Hingað til hefur svæðið einungis verið friðað hluta úr ári en til að koma í veg fyrir hugsanlegt rask á sjálfu botnlaginu vegna dreginna veiðarfæra þá ætti að huga að lokun allt árið. Hrygning steinbíts og fjöldi gjóta virðist vera svipuð innan friðaða svæðisins og er fyrir norðan það og væri því æskilegt að stækka svæðið til norðurs.“