Tvær atvikaskýrslur um sjómenn sem runnu í fiskikörum og slösuðust voru nýverið birtar á vef Rannsóknarnefndar samgönguslysa.
„Vegna tíðra slysa um borð í ísfisktogurum bendir nefndin á að ýmsar lausnir eru í boði til að koma í veg fyrir að menn renni í körum,“ segir í annarri skýrslunni og er vakin athygli á álgrindum sem settar eru í botn fiskikara eða álbakka sem þverar kör.
Fyrra atvikið sem um ræðir átti sér stað 30. október á síðasta ári um borð í Ljósafelli SU-70 sem Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði gerir út. Skipverji var einn í lest að færa frekar þungt útdraganlegt færiband milli kara þegar hann steig í kar sem var með ískrapa í. Rann hann til og skrapaðist á sköflungi og nærliggjandi svæði.
Í kjölfarið afþakkaði skipverjinn skoðun skipstjóra á áverkanum í tvígang og taldi þess ekki þörf og var skipverjinn við vinnu það sem eftir var ferðarinnar. Þremur dögum síðar lauk veiðiferðinni en á fjórða degi frá óhappi leitaði skipverjinn til læknis en þá var komin sýking í fótinn.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa mælir með því að búnaði sé beitt til að draga úr slysum í ísfisktogurum.
Samsett mynd/RNSA
Hinn 20. janúar síðastliðinn átti seinna tilvikið sér stað og var það um borð í skipi Vinnslustöðvarinnar, Brynjólfi VE-3. Í þetta sinn var skipverji að vinnu í lest skipsins og var að lyfta 300 lítra fiskikari upp í þriðju hæð og stóð ofan í öðru kari við verkið. Féll hann aftur fyrir sig og lenti með bakið á öðru kari. Skipverjinn meiddist á hrygg og hætti strax störfum.
Í skýrslunni er bent á að ekki hefur verið gert áhættumat fyrir störf í lest þótt til sé áhættumat fyrir ýmis önnur störf í skipinu. Þá er ekki virk öryggisnefnd um borð og ekki eru fyrir hendi skriflegar vinnureglur, að því er segir í skýrslu rannsóknarnefndarinnar.