Sjávarútvegurinn er mun þýðingarmeiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu og sést það vel þegar skoðað er í hvaða grein fólk hefur atvinnutekjur sínar. Bæjarstjórar á landsbyggðinni segja greinina órjúfanlegan þátt í samfélagsgerðinni og eina af grunnstoðum byggðar.
Það eru fáar atvinnugreinar sem eru umsvifameiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu, segir í greiningu sem birt var á Radarnum í maí. Vísað er til þess að hlutdeild íbúa á landsbyggðinni í atvinnutekjum greinarinnar er mun hærra í sjávarútvegi en í flestum öðrum greinum. Um 79% af atvinnutekjum í veiðum og vinnslu kemur í hlut einstaklinga á landsbyggðinni og hefur hlutfallið verið óbreytt í um áratug. Í fiskvinnslu er hlutfallið 83% en 77% í fiskveiðum. Lægra hlutfall í veiðum má rekja til þess að sjómenn eru ekki jafn háðir því að haga búsetu eftir staðsetningu útgerðar.
Fiskeldið hefur einnig sýnt fram á mikilvægi sitt fyrir atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni og er hlutdeild íbúa á landsbyggðinni í atvinnutekjum í fiskeldi 83%. Aðeins skógrækt skilar fólki á landsbyggðinni hærra hlutfall af atvinnutekjum í sinni grein.
Upplýsingar um atvinnutekjur í mismunandi sveitarfélögum voru birtar á vef Byggðastofnunar undir lok ársins 2021 og er þar hægt að rekja atvinnutekjur fólks eftir búsetu en ekki staðsetningu launagreiðenda.
Þegar dreifing atvinnutekna í veiðum og vinnslu er skoðuð, sést að rúmlega fimmtungur af þessum tekjum fara til höfuðborgarsvæðisins. Það er þó ekki sérlega mikið ef tekið er tillit til íbúafjölda, enda fara 79% af atvinnutekjum í sjávarútvegi til íbúa utan höfuðborgarsvæðisins en þar búa um 64% allra íbúa. Jafnframt er ljóst að atvinnutekjur af fiskveiðum skipta þar miklu máli þar sem tæplega fjórðungur af öllum atvinnutekjum í fiskveiðum á landinu fer til einstaklinga sem búa á höfuðborgarsvæðinu, en eins og fyrr segir eru sjómenn ekki jafn bundnir af því og margir aðrir að haga búsetu eftir vinnustað.
Atvinnutekjur í fiskvinnslu rata í meiri mæli til Suðurnesja og Norðurlands eystra en íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Vekur athygli að Suðurnes eru eini landshlutinn þar sem atvinnutekjur af vinnslu eru meiri en af veiðum. Þar getur skipt máli að í mörg ár hafa þótt mikil tækifæri í vinnslu ferskra afurða í nálægð við flutningsleiðir svo sem Keflavíkurflugvöll. Þá eru atvinnutekjur í veiðum og vinnslu á botnfiski mun dreifðari en þegar um er að ræða uppsjávarfisk.
„Ótal ástæður geta legið að baki landfræðilegri dreifingu atvinnutekna einstaklinga af veiðum og vinnslu. Að sama skapi eru ótal ástæður fyrir því að atvinnutekjur af veiðum eða vinnslu í einum landshluta aukast á sama tíma og þær dragast saman í öðrum. Til að mynda eru bæði aflabrögð og afurðaverð mun sveiflukenndari í uppsjávarfiski en botnfiski og reksturinn þar af leiðandi áhættusamari. Loðnubrestur tvö ár í röð, árin 2019 og 2020, er ágætt dæmi um það,“ segir í greiningu Radarsins.
„Þetta má telja stóra ástæðu þess að mun meiri samþjöppun hefur orðið á aflaheimildum í uppsjávarfiski en botnfiski. Nálægð við fiskimið skiptir meira máli í uppsjávariðnaði en nálægð við markaði. Þar skiptir mestu að koma afla ferskum úr sjó og í vinnslu á landi. Stærsti hluti uppsjávargeirans er á Austurlandi, Hornafirði og í Vestmannaeyjum. Sveiflur í aflabrögðum og verði á uppsjávarfiski hafa því mikil áhrif á atvinnutekjur af sjávarútvegi á þessum svæðum.“
„Við erum með eitt öflugasta útgerðarfyrirtæki landsins hér í Skagafirði, FISK Seafood, og rækjuvinnsluna Dögun sem hefur staðið sig mjög vel. Þetta skiptir miklu máli fyrir atvinnutífið á svæðinu og tekjur sveitarfélagsins,“ segir Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Skagafjarðar.
Á Sauðárkróki var landað 16.416 tonnum frá upphafi fiskveiðiársins 1. september síðastliðinn til 1. júní.
„Við höfum reynt að efla og styðja við starfsemi hafnarinnar í takt við umsvif með því að fara í stækkun á höfninni og kaup á nýjum dráttarbáti á síðastu ári. Við viljum stuðla að því að þróttur þessarar atvinnugreinar vaxi,“ segir Sigfús Ingi sem bendir á að þessar fjárfestingar skili sér síðan í auknum tekjum sveitarfélagsins.
Hann segir sjávarútveginn tvímælalaust stuðla að því að byggð haldist á svæðinu. „Við erum svo lánsöm hér í Skagafirði að miðað við stærð sveitarfélagsins erum við með býsna fjölbreytt atvinnulíf, en útgerð og fiskvinnsla eru ein meginstoð samfélagsins samt sem áður.
Miðað við áform FISK Seafood sé ég ekki annað en að það fyrirtæki haldi áfram að vaxa og dafna, eins er góður hugur hjá þeim í Dögun rækjuvinnslu. Svo sjáum við á þessu ári að væntanlega verður opnaður nýr fiskmarkaður sem mun veita góða þjónustu. Við höldum því fram, og höfum trú á því, að þjónusta við smærri báta muni aukast og þá umsvif hafnarinnar í takt við það.“
„Sjávarútvegurinn er gríðarlega mikilvægur í atvinnulífinu í Stykkishólmi. Stærsti atvinnurekandinn er í fiskvinnslu, Þórnesið,“ segir Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri í nýsameinuðu sveitarfélagi Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar. „Þetta hafa verið um 30% af útsvarstekjum sem koma úr fiskvinnslu og -veiðum í Stykkishólmi fyrir sameiningu. Maður sér hve sterkur sjávarútvegurinn er ennþá í Stykkishólmi þó það beri ekki jafn mikið á honum kannski í samanburði við Grundarfjörð og Snæfellsbæ. Þetta er enn burðarás í samfélaginu hér.“
Greinin er mikilvægur þáttur í þróun byggðarinnar að sögn Jakobs Björgvins. „Það er mikilvægt að álögur séu hófsamar þannig að það verði hagkvæmt að reka þessi litlu og meðalstóru fyrirtæki í sjávarútvegi. Þessi hóflega og sanngjarna álagning er mikilvæg til þess að treysta byggð um allt landið, því um allt land eru litlar og meðalstórar útgerðir í bland við smábátaútgerðir og þær þurfa að vera í rekstrarhæfu umhverfi.“
Það sem af er fiskveiðiárinu, eða á tímabilinu 1. september til 1. júní, hefur verið landað tæplega 2.600 tonnum í Stykkishólmi eða rétt rúmlega tveimur tonnum á hvern íbúa í sameinuðu sveitarfélagi Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar.