Hyggjast leita aftur til mannréttindanefndar SÞ

Gunnar Ingiberg Guðmundsson, formaður strandveiðifélags Íslands, glaðbeittur eftir góðan túr. …
Gunnar Ingiberg Guðmundsson, formaður strandveiðifélags Íslands, glaðbeittur eftir góðan túr. Hann segir strandveiðikerfið setja sjómönnum of þröngar skoðrur og að óhætt sé að gera kerfið sveigjanlegra. Ljósmynd/Aðsend

Fólkið sem stendur á bak við stofnun Strandveiðifélags Íslands telur það grundvallarrétt einstaklinga að mega sækja sjóinn.

Stór hópur fólks kom saman í mars þegar efnt var til stofnfundar Strandveiðifélags Íslands – félags um réttlæti í sjávarútvegi. Gunnar Ingiberg Guðmundsson er nýkjörinn formaður félagsins og áætlar hann að 60 manns hafi sótt stofnfundinn en félagsmeðlimir eru nú þegar orðnir um 300 talsins.

Stofnun félagsins átti langan aðdraganda en sagan hefst með stofnun hópsins Strandveiðispjallið á netinu. „Þar varð til samfélag trillukarla og fólks með áhuga á málefnum strandveiðimanna. Er stofnun félagsins sprottin upp úr samræðum innan hópsins en megintilgangurinn er að leita aftur til mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og fá úr því skorið hvort núverandi kerfi strand- og fiskveiða standist úrskurð nefndarinnar frá árinu 2007,“ útskýrir Gunnar og bætir við að þeir sem að Strandveiðifélaginu standa myndu helst vilja framkvæma þetta verkefni í skrefum: tryggja fyrst 48 daga á bát, þá að handfæraveiðar séu gefnar frjálsar og loks að reglur um veiðar einyrkja verði rýmkaðar verulega.

Svigrúmið of lítið

Úrskurðurinn sem Gunnar vísar til var afrakstur málareksturs tveggja sjómanna frá Vestfjörðum sem töldu að ströng ákvæði þágildandi laga um fiskveiðar brytu m.a. gegn jafnræðisreglu 26. greinar alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi:

„Erling Sveinn Haraldsson og Arnar Snævar Sveinsson heitinn héldu til veiða kvótalausir 2002 eða þar um bil til að storka lögunum, og úr því varð dómsmál sem fór í gegnum allt íslenska dómskerfið og endaði á borði mannréttindanefndar SÞ sem úrskurðaði í reynd að þágildandi kerfi fæli í sér brot á rétti einstaklinga til atvinnu. Mat nefndin það sem svo að þó að kvótasetning fiskveiða og strangar takmarkanir á veiðum kunni að hafa verið réttlætanlegar á sínum tíma þá væru reglurnar ekki tækar sem varanleg ráðstöfun,“ útskýrir Gunnar en í kjölfarið voru sett ný lög um strandveiðar og árið 2009 hófust veiðar samkvæmt nýju lögunum.

Gunnar segir óvíst að strandveiðikerfið eins og það er í dag mæti kröfum mannréttindanefndar SÞ enda fylgja veiðunum töluverðar skorður og erfitt fyrir sjómenn að lifa af veiðunum eins og þær eru skipulagðar samkvæmt lögunum. „Það er okkar sjónarmið að það séu grundvallarmannréttindi allra landsmanna að mega sækja sjóinn sem einstaklingar, og samræmist núverandi kerfi ekki þeirri sýn.“

Kvaðir, kröfur og skilyrði

Í grófum dráttum leyfir strandveiðikerfið að sjómenn stundi veiðar fjóra mánuði á ári, á bátum sem hafa að hámarki fjórar handfærarúllur. Ekki má stunda veiðar á föstudögum, laugardögum eða sunnudögum, né á rauðum dögum og aflinn má að hámarki jafngilda 650 kílóum af slægðum þorski í hverjum róðri sem aðeins má standa í 14 klukkustundir. Veiðidagar mega ekki vera fleiri en tólf á mánuði og strandveiðar eru stöðvaðar þegar heildarpotturinn er tæmdur.

Gunnar segir að reynt hafi verið að betrumbæta kerfið, koma í veg fyrir svk. ólympískar veiðar og auka nýliðun en árangurinn hafi verið lítill. Þá hafi verið horfið frá því kerfi að skipta landinu niður í ólík svæði sem hvert hefði sinn kvótapott. Í staðinn er landið allt einn pottur og að sögn Gunnars er potturinn að jafnaði fullnýttur snemma í ágúst en veiðar hefjast á vorin. Í pottinum eru um 10.000 tonn og deilast á milli hér um bil 650 báta.

Fjörugt við höfnina þegar strandveiðibátar streyma inn til löndunar.
Fjörugt við höfnina þegar strandveiðibátar streyma inn til löndunar. Ljósmynd/Líney Sigurðardóttir

Að sögn Gunnars eru ótal ágallar á kerfinu og sjómönnum sniðinn svo þröngur stakkur að þeir einu sem geta vænst ágætis tekna af veiðunum eru þeir sem eiga báta sína skuldlausa og verða ekki fyrir neinum óvæntum uppákomum meðan á veiðitímabilinu stendur. Þá sé margt við þetta kerfi sem veldur því t.d. að veiðar dreifast ójafnt á milli landshluta og hvatar skapaðir til að stunda veiðar við slæmar aðstæður eða veiða verðminni afla.

„Það væri strax mikil framför að fá að róa 48 daga á ári og fá að ráða því sjálfur hvaða dagar það væru. En einnig má líta til þeirra kerfa sem komið hefur verið á í löndum eins og Færeyjum þar sem veiðar smábáta hafa verið gefnar frjálsar, eða í Noregi þar sem smábátar fá úthlutuð 20 tonn af þorski, geta nánast stundað frjálsar veiðar á ýsu og ufsa og mega veiða bæði á línu og handfæri.“

Lítill útblástur og meiri gæði

Gunnar bendir á að ýmsir kostir fylgi því að liðka fyrir veiðum af þessu tagi og hefur t.d. sýnt sig að í greininni á sér stað blöndun reynslubolta og nýliða í greininni með tilheyrandi yfirfærslu þekkingar. Veiðarnar hafa líka lágt kolefnisspor miðað við magn þess afla sem landað er og hráefnið í hæsta gæðaflokki. Þá fara veiðarnar vel með stofninn og vistkerfi hafsins auk þess að skapa ákveðinn stöðugleika í atvinnulífi sjávarþorpa, starfsemi fiskmarkaða og afleiddra starfa.

Landssamband smábátaeigenda hefur reiknað út að meðaaflatekjur hvers róðurs handfærabáts séu um 275 þúsund krónur. „Það virðist að þegar illa árar leiti menn í strandveiðar og skapi þannig sjálfum sér atvinnu og búi til verðmæti fyrir samfélagið en þegar vel árar í landi dregur úr ásókninni og veiðarnar einkum stundaðar af ákveðnum kjarnahópi og þeirra nánustu,“ segir Gunnar.

Strandveiðibátur kemur til hafnar á Arnarstapa.
Strandveiðibátur kemur til hafnar á Arnarstapa. mbl.is/Alfons

Spurður hvort óhætt væri, með tilliti til stofnstýringarsjónarmiða, að létta hömlum á strandveiðum að miklu leyti segir Gunnar að jafnvel ef mikil fjölgun yrði hjá þeim sem stunda veiðarnar sé hæpið að stofnanir láti á sjá enda veiðarnar krefjandi, umfang þeirra lítið og veiðarfærin háð árstíð. Nefnir hann að Hafrannsóknastofnun hafi sjálf sagt að þorskstofninn hafi ekki verið sterkari í fjörutíu ár að frátöldum sl. fimm árum. „Sókn er ennþá í sögulegu lágmarki. Því er ekkert nema þráhyggja stjórnvalda því til fyrirstöðu að einstaklingsútgerðir fái frjálsari hendur.“

Þá segir hann hægt að leiða líkum að því að stofnarnir umhverfis Íslands séu vannýttir og stafar það m.a. af því að Hafrannsóknastofnun fái ekki það fjármagn sem stofnunin þarf til að stunda ítarlegri rannsóknir. „Viðmiðið er að nýta 20% hrygningarstofnsins en vegna undirfjármögnunar þarf Hafrannsóknastofnun að beita vaúðarnálgun við túlkun sinna gagna og tillagna. Það getur leitt af sér mun varfærnari fiskveiðistjórnun með meiri sveiflum heldur en ef stofnunin væri almennilega fjármögnuð. Skýtur það skökku við að svo áratugum skipti hafi íslenskur sjávarútvegur getað hugsanlega veitt langtum meiri afla en leyft er í dag.“

Verður langtímabarátta

Gunnar telur fiskveiðistjórnunarkerfið eins og það er í dag hannað til að hemja stórskipaflotann. „En það er ekki sama þörf á þessari ofstjórn einstaklingsútgerðar. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa unnið ötullega í því að fækka stærri skipum og gera útgerð þeirra á Íslandi hagkvæmari. Tími er til að þjóðin fái að njóta ábatans af áratugalöngum höftum og einstaklingum gert það kleift að sækja sjó með eigin höndum á umhverfisvænan og orkunýtinn hátt.“

Verið er að leggja drög að næstu skrefum í starfi Strandveiðifélagsins en Gunnar segir að byggt verði á reynslu þeirra Erlings Sveins, Arnars Snævars heitins og Valdimars Jóhannessonar sem árið 1998 hafði betur gegn ríkinu í frægu hæstaréttarmáli um atvinnufrelsi og fiskveiðar. „Við sjáum fram á langtímabaráttu og reiknum ekki með að slagurinn verði ódýr, en við vitum líka að margir lögfræðingar eru vel að sér um þessi mál og geta lagt okkur lið við að koma á frumbyggjarétti allra landsmanna til að geta sótt sjóinn.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 19.1.25 540,91 kr/kg
Þorskur, slægður 19.1.25 672,17 kr/kg
Ýsa, óslægð 19.1.25 389,94 kr/kg
Ýsa, slægð 19.1.25 323,26 kr/kg
Ufsi, óslægður 19.1.25 283,17 kr/kg
Ufsi, slægður 19.1.25 244,63 kr/kg
Undirmálsufsi, óslægður 26.7.23 10,00 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 14.1.25 21,00 kr/kg
Djúpkarfi 6.1.25 90,00 kr/kg
Gullkarfi 19.1.25 216,57 kr/kg

Fleiri tegundir »

17.1.25 Litlanes ÞH 3 Línutrekt
Ýsa 1.064 kg
Þorskur 298 kg
Steinbítur 47 kg
Keila 17 kg
Hlýri 15 kg
Samtals 1.441 kg
17.1.25 Einar Guðnason ÍS 303 Lína
Þorskur 8.767 kg
Ýsa 5.091 kg
Steinbítur 294 kg
Langa 219 kg
Keila 78 kg
Karfi 20 kg
Samtals 14.469 kg
17.1.25 Eskey ÓF 80 Línutrekt
Þorskur 10.232 kg
Ýsa 1.981 kg
Langa 354 kg
Karfi 37 kg
Steinbítur 26 kg
Samtals 12.630 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 19.1.25 540,91 kr/kg
Þorskur, slægður 19.1.25 672,17 kr/kg
Ýsa, óslægð 19.1.25 389,94 kr/kg
Ýsa, slægð 19.1.25 323,26 kr/kg
Ufsi, óslægður 19.1.25 283,17 kr/kg
Ufsi, slægður 19.1.25 244,63 kr/kg
Undirmálsufsi, óslægður 26.7.23 10,00 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 14.1.25 21,00 kr/kg
Djúpkarfi 6.1.25 90,00 kr/kg
Gullkarfi 19.1.25 216,57 kr/kg

Fleiri tegundir »

17.1.25 Litlanes ÞH 3 Línutrekt
Ýsa 1.064 kg
Þorskur 298 kg
Steinbítur 47 kg
Keila 17 kg
Hlýri 15 kg
Samtals 1.441 kg
17.1.25 Einar Guðnason ÍS 303 Lína
Þorskur 8.767 kg
Ýsa 5.091 kg
Steinbítur 294 kg
Langa 219 kg
Keila 78 kg
Karfi 20 kg
Samtals 14.469 kg
17.1.25 Eskey ÓF 80 Línutrekt
Þorskur 10.232 kg
Ýsa 1.981 kg
Langa 354 kg
Karfi 37 kg
Steinbítur 26 kg
Samtals 12.630 kg

Skoða allar landanir »