Hvalasérfræðingum í Vestmannaeyjum brá í brún þegar þeir komu auga á lítinn kálf, kominn af grindhvölum, synda í hóp með háhyrningum við strendur eyjanna á föstudaginn.
Þetta er sjaldgæfur atburður, sérstaklega í ljósi þess að þessar tvær tegundir eru ekkert sérstaklega vinveittar hvor annarri. Raunar kom nýverið í ljós að grindhvalir við strendur Íslands fæla í burtu háhyrningana, sem eru oft kallaðir konungar hafsins.
Getgátur eru uppi um að háhyrningarnir hafi tekið að sér kálfinn þar sem frændur hans eru hvergi nærri en það þarf þó ekki að vera. Raunin er sú að vísindamenn hafa ekki hugmynd um hvernig þetta kom til né hvort kálfurinn sé ennþá á lífi.
„Við höfum ekki séð þetta áður hér í Vestmannaeyjum,“ segir Dr. Filipa Samarra, rannsóknarsérfræðingur við starfsstöð Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands í Vestmannaeyjum, en nemandi hennar kom auga á kálfinn. Það sama virðist hafa gerst á Vesturlandi í ágúst 2021.
„Við erum að skoða þetta og reyna að skilja samband tegundanna. Þær hafa ekki sýnt hvor annarri árásargjarna hegðun. Þess vegna vorum við mjög hissa að sjá grindhvalakálf í hópnum,“ segir hún.
Útlit er fyrir að kálfurinn hafi verið fæddur fyrir nokkrum dögum, eða fyrir allt að viku.
Í fimm klukkutíma fylgdist rannsóknahópur á vegum Háskóla Íslands með kálfinum ásamt þessu fríða föruneyti og benti ekkert til árásargirni af hálfu háhyrninganna, að sögn Filipu.
„Við höfum lengi fylgst með háhyrningum á þessu svæði og þeir virðast nærast á fiski. Ekki spendýrum,“ segir hún.
Vísindamenn á svæðinu hafa þó ekki aftur komið auga á kálfinn síðan á föstudaginn, þrátt fyrir að hafa séð sömu háhyrninga og syntu með kálfinum.
Þó eru dæmi um að háhyrningar sem nærast á fiskum veiði hnísur, minnstu tannhvalategundina við Íslandsstrendur, sér til gamans. Þá eru háhyrningar annars staðar við Íslandsstrendur sem nærast á fiskum og spendýrum, stundum til skiptis.
Einnig eru dæmi um að háhyrningar ræni kálfum frá öðrum hvalategundum og leiki sér að því að veiða þá, þar sem þeir eru minni og varnarlausir.
„Þetta er áhugavert og breytir því hvernig við rannsökum samskipti þessarra dýra,“ segir hún en stofnunin vinnur nú einmitt að frekari rannsóknum á þessu sviði.
„Við erum að skoða gögn sem við eigum frá síðastliðnum dögum, þar á meðal hljóðupptökur. Við erum með hljóðnema sem situr á hafsbotninum og tekur upp hljóð sem hvalirnir gefa frá sér,“ segir Filipa. Með þeim upplýsingum væri hægt að afla frekari þekkingar um hvenær grindhvalir voru á svæðinu og hvaðan litli kálfurinn kom.
Hópur á vegum íslenska háhyrningaverkefnisins (Icelandic Orca Project), sem Filipa leiðir, birti einmitt nýverið rannsókn um neikvæð samskipti tegundanna fyrir skemmstu.
„Grindhvalir virðast leika sér að því að fæla háhyrninga burt, annað hvort til að umkringja þá eða tegundirnar gætu verið í einhvers konar keppni,“ segir hún, en Morgunblaðið fjallaði um rannsóknina.
Þá hefur þessi sjaldgæfa sjón vakið athygli erlendis, en fjallað er um málið á vef tímaritsins Newsweek.