Bátadagar á Breiðafirði verða haldnir laugardaginn 9. júlí, ef veður leyfir. Það er Félag áhugamanna um Bátasafn Breiðafjarðar á Reykhólum sem gengst fyrir bátahátíðinni, nú í fimmtánda sinn.
„Upphafið var að við sigldum í hóp á gömlum trébátum, opnum súðbyrðingum. Oft hafa þetta verið 6-8 bátar en voru 20 þegar þeir voru flestir. Þá komu menn vestan af fjörðum og sunnan úr Reykjavík til að vera með. Þessir bátar eru að týna tölunni, en nokkrum er haldið gangandi,“ segir Hafliði Aðalsteinsson, skipasmíðameistari og húsasmiður.
Súðbyrðingarnir eru 6-9 metra langir og flestir með breiðfirsku lagi. Allir bátarnir eru vélknúnir en nokkrir einnig með seglabúnað og draga þau upp í hagstæðum byr, þó ekki í hópsiglingunni. Í seinni tíð hafa nýtískulegri bátar einnig slegist í hópinn. Oft fer björgunarsveitarbátur með eða hraðbátur sem getur brugðist skjótt við ef eitthvað ber út af.
„Sex metra löngu bátarnir voru mikið notaðir við nýtingu hlunninda, eins og æðardún, selveiði og þess háttar. Stærri bátarnir voru notaðir til flutninga bæði á Breiðafjarðareyjum og nesjunum áður en vegir komu heim að öllum bæjum við innanverðan Breiðafjörð,“ segir Hafliði. „Minnstu bátarnir, fjögurra manna förin, voru til á öllum bæjum sem áttu land að sjó. Meðan verslunin var í Flatey fóru menn í verslunarferðir á þessum litlu hornum.“
Flestir bátanna voru smíðaðir þegar vélvæðingin var að taka við á árunum 1930-1950. Örfáir eru yngri.
Siglt verður frá Reykhólum til Hvallátra og aftur til baka. Ekki er farið í siglinguna nema veðrið sé mjög gott. Annars verður þetta ekki skemmtiferð. Þurfi að fresta ferðinni verður farið seinna í sumar. Siglt er á milli skerja stóran hluta leiðarinnar og hún er ekki nema fyrir þaulkunnuga. Hafliði er uppalinn í Hvallátrum og þekkir leiðina vel. Bróðir hans er svo í öðrum báti og þeir lóðsa bátana á milli skerjanna. Meðal annars verður siglt um sund sem eru á þurru um fjöruna og því þarf að sæta sjávarföllum.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu 7. júlí.