„Þetta er talsvert flókið mál sem okkur hefur ekki tekist að koma dómnum í skilning um,“ segir í tilkynningu frá NRS. Þar segir jafnframt að NRS hafi lagt sig fram við að gera framsækið upplýsingatæknikerfi til þess að þjónusta betur fiskseljendur og kaupendur í samkeppnisumhverfi.
Héraðsdómur Reykjaness staðfesti í gær lögbann sem sett var á NRS ehf. þann 22. október á síðasta ári. Komst dómskvaddur matsmaður að því að hugbúnaðurinn sem fyrirtækið studdist við hafi verið að miklu leiti líkt kerfinu sem samkeppnisaðilinn, Reiknistofa fiskmarkaða (RSF), hefur hannað og notað til að þjónusta uppboð fiskmarkaða.
Lítill hluti af kerfinu
„Við erum enn sannfærð um sakleysi okkar þrátt fyrir þessa niðurstöðu,“ segir í yfirlýsingu NRS.
NRS telur dóminn grundvallast á kóða sem tengist uppboðsklukkunni, og þeir keyptu erlendis. „Sem síðar kom í ljós að við máttum ekki nota samkvæmt dómnum.“
Þá benda þeir á að um sé að ræða mjög lítinn hluta af öllu kerfinu, sem búið hafi verið að taka út. „Það var enginn kóði afritaður né viðskiptaleyndarmál hagnýtt.“
Eyjólfi heimilt að ráða sig í vinnu hjá NRS
Fór RSF einnig fram á að lögbann yrði sett á Eyjólf þar sem honum ætti að vera óheimilt að starfa fyrir samkeppnisaðila fram til 8. mars 2022. Var hann þó sýknaður af þeirri kröfu. Þegar honum var sagt upp 8. mars 2021 féllu úr gildi bæði réttindi og kvaðir sem hann hafði undirgengist með ráðningarsamningi þann 30. janúar 2014.
„Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að honum var allan tímann heimilt án allra kvaða að ráða sig í vinnu hjá öðrum atvinnurekendum við starfslok,“ segir í tilkynningu NRS.
Nýjar lausnir kynntar fljótlega
Sá sem forritaði uppboðskerfi NRS er fyrrverandi starfsmaður RSF og kom því að gerð beggja uppboðskerfa. Sá hafði verið kerfisstjóri RSF frá 2007 til ársins 2020. Fór RSF einnig fram á lögbann á störf hans en var hann sýknaður þar sem tímabilið sem kvaðir á atvinnu hans voru í gildi runnu út áður en dómur féll í málinu.
„Þeir eru þ.a.l. í fullu starfi hjá NRS ehf og ætla ekki að sitja auðum höndum og boða nýjar lausnir sem kynntar verða hérna á vefnum okkar fljótlega.“