Íbúar Seyðisfjarðar og gestir listahátíðarinnar LungA komu saman í firðinum á laugardaginn til að mótmæla fyrirhuguðu sjókvíaeldi þar. Að sögn Ásrúnar Mjallar Stefánsdóttur, sem er í samtökunum VÁ – félagi um vernd fjarðar, og situr í sveitarstjórn Múlaþings, voru mótmælin vel sótt.
Mótmælunum var lýst sem samstöðufundi með íbúum og samverustund. Fyrirhuguðum framkvæmdum fiskeldisfyrirtækisins Fiskeldi Austfjarða, sem er að stærstum hluta til í eigu stórfyrirtækisins Måsøval AS, var mótmælt. Laxar fiskeldi er einnig í eigu stórfyrirtækisins.
Ásrún bendir á að um 55 prósent Seyðfirðinga séu búin að ljá undirskriftalista nafn sitt til að mótmæla fiskeldinu
„Þetta er merki um það að peningar erlendra stórfyrirtækja séu að valta yfir vilja fólks,” segir Ásrún.
Hún bætir við að fundur sem var haldinn í bænum af Skipulagsstofnun ríkisins um haf- og strandsvæðisskipulag sem fyrirhugað er að samþykkja á komandi misserum hafi komið henni og mörgum íbúum á óvart.
„Tilfinningin var sú að skipulagið væri samið fyrir fiskeldið,” segir Ásrún og bætir því við að hún ásamt meðlimum í Vá – félags um vernd fjarðar – hafi í kjölfarið sent athugasemdir við skipulaginu en að svör hafi verið af skornum skammti.
Ásrún bendir á að fiskeldi í firðinum gæti komið til með að ógna bæði Farice-1 sæstrengnum sem liggur úr Seyðisfirði og siglingaleiðum skipa um fjörðinn. Þá segir hún að meðlimir Vá - félags um vernd fjarðar hafi orðið varir við það að talsmenn fiskeldisfyrirtækisins hafi notast við vitlausa mælieiningu þegar þeir hafa reiknað út helgunarsvæði sæstrengsins og umferð skipa.
„Farice hefur staðfest að það eigi að nota sjómílu á Íslandi í svona reikningum en fiskeldisfyrirtækið notar breska mílu sem gefur þeim meira pláss. Sama villa kom fram í kynningunni á haf- og strandsvæðisskipulaginu.“ Sú villa hefur ekki verið lagfærð af sögn Ásrúnar.
„Þeir tala um þetta eins og þetta eigi að gerast í haust 2023 og tala mjög fögrum orðum um að þetta eigi að fara fram í sátt og samlyndi íbúa en þetta er það alls ekki.”
Ásrún tók til máls á fundinum ásamt Tinnu Hallgrímsdóttur, formanni Ungra umhverfissinna, og Pétri Heimissyni, sveitastjórnarfulltrúa Vinstri grænna í Múlaþingi. Að auki fór Hafmeyjuklúbburinn með listrænan gjörning á mótmælunum. Hópurinn samanstendur af Ásrúnu, Perlu Gísladóttur sjálfbærniarkitekt og Áslaugu Magnúsdóttur tónskáldi. Þær settu þá vatnsheldan hljóðnema ofan í sjó sem streymdi hljóði frá sjónum beint til fólks á mótmælunum.