Sjómenn þurfa að geta bjargað sjálfum sér og öðrum

Guðni Arinbjarnar, sjómannalæknir, segir mikilvægt að gengið sé úr skugga …
Guðni Arinbjarnar, sjómannalæknir, segir mikilvægt að gengið sé úr skugga um að sjómenn séu með gott heilsufar. Málefnið varðar þeirri eigin öryggi og öryggi kollega þeirra um borð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Seint verður talið að starf sjómannsins sé hættulaust. Því er ljóst að stöðug hætta er á að sjómenn lendi í því óláni að slasast. Jafnframt krefjast aðstæður á sjó þess að skipverjar séu við góða heilsu. Ein leið til að tryggja að slasaðir og veikir sjómenn fái þá þjónustu og eftirfylgni sem þeir þurfa, auk þess sem heilsa þeirra er skoðuð, er að fá heildstæða þjónustu frá sjómannalækni. Sú þjónusta stendur einmitt til boða hjá heilbrigðisfyrirtækinu Sjómannaheilsu.

Ég var lengi að vinna á Akureyri og sá sjómenn slasaða, sem biðu eftir skoðun, myndatökum, heimilislæknum og sjúkraþjálfun. Þar sem ég er bæklunarlæknir, var þetta svolítið á mínu borði fyrir norðan. Ég gerði mér ljóst að mikil þörf væri á að koma þessum atvinnumönnum til vinnu sem best og sem fyrst. Þarna kviknaði áhuginn á því að sinna þessu,“ segir Guðni Arinbjarnar, sem hefur verið sjómannalæknir um árabil.

Guðni hefur sem bæklunarskurðlæknir sinnt fjölda sjúklinga á Akureyri. Margir …
Guðni hefur sem bæklunarskurðlæknir sinnt fjölda sjúklinga á Akureyri. Margir sjómenn eru á svæðinu og sá hann þörf á sjómananlækningum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Það er hins vegar engin hefð hér á landi fyrir því að til séu sérhæfðir sjómannalæknar, þrátt fyrir að Íslendingar hafi löngum stundað sjósókn af kappi. „Þetta er í rauninni synd og skömm og mér finnst þetta virðingarleysi við sjómannastéttina. Fyrir um fimmtán árum, þegar ég byrjaði í þessu, var ég reglulega hjá Samgöngustofu að reyna að ýta við þessu en það gerðist aldrei neitt. Ég veit ekki hvort þetta hafi verið áhugaleysi eða peningaleysi.“

Guðni segir áhugann á málaflokknum hafi leitt til þess að hann sótti um að verða viðurkenndur sjómannalæknir í Noregi fyrir um 15 árum. „Þá var til þessi stétt lækna í Noregi. Þeir þurfa að fara á námskeið til að fá viðurkenningu sem slíkir og uppfylla ákveðin skilyrði. Því fór ég út á námskeið og var þar í viku. Þegar ég kom heim fór ég að kalla mig sjómannalækni á Íslandi líka. Vorum við þá tveir sjómannalæknar, viðurkenndir af norskum yfirvöldum starfandi hér á landi.“

Norskir sjómenn fá þjónustu lækna víða um heim, sem viðurkenndir eru af norskum yfirvöldum. Ástæðan hefur meðal annars verið sú að þess er krafist að heilsufar sjómanna sé vottað, ella mega þeir ekki vera á sjó.

Öryggisatriði fyrir sjómanninn sjálfan

Kröfur til heilsufars sjómanna hafa verið gerðar í Noregi í um tvo áratugi. Þær kröfur voru fyrst leiddar í lög hér á landi í desember 2019 fyrir farmenn og þá sem eru í farþegaflutningum. Nú er verið að innleiða þessar kröfur yfir á sjómenn á fiskiskipum.

Með þessum breytingum er ætlast til þess að útgerð og skipstjóri geri kröfu um að sjómenn leggi reglulega fram vottorð um að þeir uppfylli skilyrði um sjón og heyrn og að þeir hafi heilsu og líkamsburði til stunda sjómennsku á öruggan hátt. Nær krafan til sjómanna á fiskiskipum sem eru 24 metrar að lengd eða stærri.

Heilsufar sjómanns er mikilvægur þáttur í öryggi hans á sjó.
Heilsufar sjómanns er mikilvægur þáttur í öryggi hans á sjó. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Guðni segir að samhliða samþykkt laganna, hafi Samgöngustofa auglýst eftir áhugasömum læknum til að verða sjómannalæknar. Þeir sem sóttu um voru samþykktir, án þess að gerð væri krafa um sérhæfða þekkingu á málefninu. Spurður, hvort það þyrfti að gera kröfu um menntun lækna hér á landi sem vilja vera sjómannalæknar, svarar hann því játandi með afgerandi hætti.

Til þess að votta heilbrigði sjómanna þarf að fara í gegnum nokkuð nákvæma líkamsskoðun, að sögn Guðna. „Það er mæld sjón og heyrn. Farið er yfir vöðva, taugakerfi og gerð er nokkuð ítarleg læknisskoðun. Blóðþrýstingur er mældur, hlustað á hjarta og lungu, þreifað á kvið. Það er farið yfir allt kerfið. Þetta er fyrst og fremst öryggisatriði fyrir sjómanninn sjálfan. Tilgangurinn er, eins og segir í norsku reglunum, að það fari enginn á sjó með sjúkdóm sem getur versnað úti á sjó og það fari enginn á sjó sem ekki getur bjargað sjálfum sér og öðrum í háska. Þetta er í þágu þeirra öryggis.“

Kljást við vantraust

Hann viðurkennir að sjómenn hafi verið dálítið tortryggnir gagnvart þessum heilsufarsskoðunum. Þeir hafi talið að verið sé að njósna um heilsufar þeirra. Það sé þó ekki vegna ótta um að þeir hljóti ekki vottun. „Þeir eru hræddari um að kjaftað verði í vinnuveitandann. Trúnaðurinn er við sjúklinginn. Við erum eins og hver önnur heilbrigðisstofnun eða -fyrirtæki og fylgjum landslögum. En það er alltaf þetta vantraust. Í þessu er oft vísað til þess að það eru útgerðirnar sem borga fyrir þjónustu okkar. Ég sagði fyrir um 20 árum að það myndi taka mig um 20 ár að vinna traust manna, en það er ekki alveg komið ennþá.

Afar sjaldan falla menn á þessari skoðun. Í þeim tilfellum greinum við menn kannski með háan blóðþrýsting eða sykursýki og þeir fá ekki skoðun fyrr en búið er að laga þau mál. Þetta eru oft karlar sem fara sjaldan til læknis.“

Afar jákvætt er að loksins sé þess krafist að sjómenn fari í reglulega skoðun að mati Guðna. Hann segir helstu áskorunina í þessum málaflokki þá að Samgöngustofa sinni eftirliti með framkvæmd skoðananna. „Það væri einnig gott ef sjómenn og útgerðir gætu komið sér saman um hlutina og að ekki væri þessi stöðugi núningur,“ bætir Guðni við.

Guðni segist enn vera að vinna upp traust sjómanna.
Guðni segist enn vera að vinna upp traust sjómanna. mbl.is/Kristinn Benediktsson

Færri stórslys

Spurður hvernig þróunin hafi verið í slysum sjómanna á þeim tíma sem hann hefur sinnt málefnum sjómanna svarar hann: „Slysum hefur fækkað og stórum slysum hefur snarfækkað, þar sem menn hafa verið að hífa vitlaust, fengið pokann yfir og jafnvel farið útbyrðis. Menn eru miklu varari um sig, sem er ofboðslega gott. Það er eftirtektarvert hvað öryggismálunum hefur fleygt fram. Það skiptir sköpum að útgerðir hafi mjög virka öryggisfulltrúa. Ég hef tekið eftir því að hjá útgerðum, þar sem öryggisfulltrúinn er mjög virkur, er minna um slys.“

En hvaða áverkum verða sjómenn helst fyrir? „Það sem við sjáum mest eru bakáverkar og áverkar á útlimum, öxlum og hnjám. Aftur finnst mér slys á fingrum vera að fjölga mikið. Menn klemma sig, lemja á fingur, verða undir kari og fingurbrotum fjölgar aftur. En það eru auðvitað sveiflur í þessu.“

Þá má rekja 60 til 70% af allri óvinnufærni sjómanna til stoðkerfisvandamála, en það er jafnframt sérsvið Sjómannaheilsu. „Þeir sem eru búnir að vera lengi á sjó eru orðnir slitnir og þreyttir. Hnén farin að gefa sig sem og axlirnar. Álagsmeiðslunum finnst mér fækka, þar sem menn eru farnir að hugsa meira um að dreifa álaginu. Skipta um stöðu og færa sig til á færibandinu. Það hefur öllu fækkað, slysum líka. Álagsmeiðslin koma mest fram í höndum, hnjám og öxlum.“

Áður var tíðrætt um að sjómenn misstu til að mynda hendur milli togvíra. Aðspurður um slíka áverka segir Guðni limamissi vera nánast liðna tíð. „Stúfhögg og limamissir er verulega sjaldgæft orðið, sem betur fer.“

En hefur hann áhyggjur af því að fækkun slysa hafi neikvæð áhrif á rekstur Sjómannaheilsu? „Nei. Það er bara mjög gott,“ svarar Guðni og hlær. Hann útskýrir að það sé í raun sífellt meira að gera, þar sem fyrirtækið sinnir alls konar þjónustu sem snýr að utanumhaldi. „Allir sem eru veikir og óvinnufærir – ég er í sambandi við þá, fyrir þau fyrirtæki sem ég er að sinna. Við sinnum þeirra málum, jafnvel eins og heilsugæsla. Þeir komast þá í samband við okkur strax og fólki í okkar umsjón hefur fjölgað. En vandamálin eru kannski ekki eins stór og þau voru.“

Farsíminn skipti sköpum

„Í stórslysum og veikindum gildir alltaf sú regla að skipstjóri hefur samband við Landhelgisgæsluna og þar er ákveðið hvað gera skal. Oft eru vandamálin eða veikindin þess eðlis að skipstjóri vill ekki hringja í 112,“ útskýrir Guðni Arinbjarnar. Því eru sjómannalæknar einnig til taks í tengslum við fjarlækningar á sjó. „Skipstjórarnir hringja í mig ef þá vantar aðstoð við eitthvað, eins og sýkingar, gefa sýklalyf, kviðverki og þess háttar.“

Hann segir heilbrigðisþjónustu á sjó hafa tekið miklum framförum, en það hafi allt hafist með tilkomu farsímans sem gerði það að verkum að samskiptin urðu mun betri. Einnig hafi verið stórt framfaraskref þegar hægt varð að senda lækni myndir, til að mynda af auga eða fingri.

Engin apótek eru á sjó en um borð í hverju skipi er lyfjakista, sem er misstór eftir stærð skipsins. Guðni segir þetta fyrirkomulag hafa reynst mjög vel. Hann bætir við að afar sjaldan hafi ekki verið þau lyf um borð sem hann hafi viljað gefa skipverja.

Spurður hvert næsta skref kunni að vera í fjarþjónustu á sjó svarar hann: „Það væru bein samskipti í mynd, við lækninn sem sinnir skipinu.“

Viðtalið við Guðna var fyrst birt í sjómanandagsblaði 200 mílna sem fylgdi Morgunblaðinu 11. júní.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 22.7.24 471,71 kr/kg
Þorskur, slægður 22.7.24 396,54 kr/kg
Ýsa, óslægð 22.7.24 366,25 kr/kg
Ýsa, slægð 22.7.24 235,69 kr/kg
Ufsi, óslægður 22.7.24 246,94 kr/kg
Ufsi, slægður 22.7.24 223,45 kr/kg
Djúpkarfi 21.6.24 304,40 kr/kg
Gullkarfi 22.7.24 607,72 kr/kg
Litli karfi 8.7.24 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 1.7.24 106,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

22.7.24 Ásdís ÍS 2 Dragnót
Ýsa 3.160 kg
Þorskur 1.817 kg
Skarkoli 867 kg
Skrápflúra 307 kg
Sandkoli 48 kg
Steinbítur 31 kg
Þykkvalúra 9 kg
Karfi 6 kg
Ufsi 5 kg
Langlúra 3 kg
Samtals 6.253 kg
22.7.24 Bárður SH 81 Dragnót
Ýsa 6.738 kg
Þorskur 873 kg
Steinbítur 217 kg
Skarkoli 101 kg
Hlýri 3 kg
Samtals 7.932 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 22.7.24 471,71 kr/kg
Þorskur, slægður 22.7.24 396,54 kr/kg
Ýsa, óslægð 22.7.24 366,25 kr/kg
Ýsa, slægð 22.7.24 235,69 kr/kg
Ufsi, óslægður 22.7.24 246,94 kr/kg
Ufsi, slægður 22.7.24 223,45 kr/kg
Djúpkarfi 21.6.24 304,40 kr/kg
Gullkarfi 22.7.24 607,72 kr/kg
Litli karfi 8.7.24 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 1.7.24 106,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

22.7.24 Ásdís ÍS 2 Dragnót
Ýsa 3.160 kg
Þorskur 1.817 kg
Skarkoli 867 kg
Skrápflúra 307 kg
Sandkoli 48 kg
Steinbítur 31 kg
Þykkvalúra 9 kg
Karfi 6 kg
Ufsi 5 kg
Langlúra 3 kg
Samtals 6.253 kg
22.7.24 Bárður SH 81 Dragnót
Ýsa 6.738 kg
Þorskur 873 kg
Steinbítur 217 kg
Skarkoli 101 kg
Hlýri 3 kg
Samtals 7.932 kg

Skoða allar landanir »