Ekkert skip á vegum Þorbjarnar hf. í Grindavík hefur verið á veiðum í Barentshafi í vetur, en fyrirtækið hefur leigt frá sér allar heimildir í norskir lögsögu. Nokkur ár eru frá því að fyrirtækið seldi aflaheimildir sínar í rússneskri lögsögu.
Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjarnar hf., segir fyrirtækið þó ekki hafa gefið veiðar í Barentshafi upp á bátinn. „Okkur hefur fundist þetta orðið lítið og höfum ákveðið að leigja þetta frá okkur. Ætli kvótinn hafi ekki verið skertur u.þ.b. um 40% á nokkrum árum.“ Hann útskýrir að leigðar hafi verið heimildir hér á landi í staðinn.
Um þrjú til fjögur ár eru frá því að Þorbjörn seldi aflaheimildir fyrirtækisins í rússneskri lögsögu, að sögn Gunnars. „Menn voru alltaf svolítið kvíðnir að fara á veiðar á þessu svæði í Barentshafi. Það var alveg tilviljunarkennt hvernig veiðar gengu þar. Mönnum hefur gengið betur í norsku lögsögunni.“
Nýtt fiskveiðiár hefst 1. september næstkomandi. Flest bendir til skerðingar á þorskkvótanum í samræmi við ráðleggingar Hafrannsóknastofnunar.
Beðinn um að spá í spilin og greina frá helsta viðfangsefni komandi fiskveiðiárs, svarar Gunnar: „Það hefur áhrif á okkur eins og aðra, þessi minnkun, en við höfum nokkrar heimildir sem við flytjum milli ára. Við tókum á okkur einhvern samdrátt á þessu fiskveiðiári og færðum heimildir yfir á næsta. Við höfum trú á því að fiskverð haldist hátt eitthvað fram eftir og njótum góðs af því.“
Hann viðurkennir þó að olíukostnaður hafi verið áhyggjuefni. Þrátt fyrir að hráolíuverð hafi lækkað á heimsmarkaði í mars er verðið um 60% hærra nú en fyrir ári. „Veiðin hefur gengið vel, eftir því sem við veiðum meira á sóknareininguna, verður olían kannski ekki eins erfið.“
Þorskkvótinn var minnkaður fyrir yfirstandandi fiskveiðiár og verður eins og fyrr segir enn minni á komandi fiskveiðiári. Hefur minna hráefni þýtt að gripið hafi verið til breytinga í vinnslunni?
„Við höfum minnkað útgerð á línuskipi og gerum bara út einn línubát. En við erum aftur á móti farnir að veiða meira af ferskum fiski í troll og höfum tekið það inn í vinnslu hjá okkur. Það hefur komið á móti minnkun á línunni. Trollskipin hafa getað komið með nánast tvöfaldan afla á við línubátinn. Við höfum verið að vinna við að koma þessu á markaðinn og okkar kúnnar sem tóku við línufiski eru farnir að taka við trollfiski. Þannig höfum við náð að brúa bilið,“ útskýrir Gunnar.