Samtök sjómanna mótmæla þeirri breytingu á reglugerð um hvalveiðar sem Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, hefur boðað um dýravelferðarfulltrúa í hverju hvalskipi. Telja talsmenn stéttarinnar að ríkisvaldið sé að útvista eftirlitshlutverki sínu og skipa áhöfn að hafa eftirlit með sjálfri sér.
Þetta kemur fram í umsögn um breytingartillögu matvælaráðherra sem birt hefur verið í samráðsgátt stjórnvalda. Undir umsögnina rita talsmenn Félags skipstjórnarmanna, VM-félags vélstjóra og málmtæknimanna og Sjómannasambands Íslands.
Vekja talsmennirnir athygli á því að breytingin felur í sér að skipstjóra hvalveiðiskips er gert að tilnefna dýravelferðarfulltrúa úr áhöfn. Í tillögunni segir að dýraverndarfulltrúinn skuli „bera ábyrgð á því að rétt sé staðið að velferð hvala við veiðarnar. Dýravelferðarfulltrúi skal ekki vera sá sami og beitir skutli.“ Jafnframt er viðkomandi gert að „halda skrá yfir allar aðgerðir er varða veiðarnar, mynda þær á myndband og skrá þær niður.“
„Við teljum ótækt að skipstjóri sé settur í það hlutverk að tilnefna einn úr áhöfn í slíkt eftirlitshlutverk og sú mikla ábyrgð sem því fylgir sé lagt á áhafnarmeðlim hvalveiðiskips,“ segir í umsögninni
Óljóst hver ber kostnaðinn
„Um er að ræða íþyngjandi breytingu sem kemur til með að hafa í för með sér kostnað, enda staðan sú að miðað við fjölda í áhöfn hafa allir áhafnarmeðlimir hlutverk við veiðarnar. Ekkert kemur fram í breytingartillögunni um það hver skuli bera þann kostnað,“ segir í umsögninni.
Þá velta talsmenn sjómanna því upp „hvort ekki væri hægt að ná sama markmiði með viðurhlutaminni aðgerðum. Eftirlit á ekki að koma í hlut skipstjóra og áhafnar, ríkið getur ekki útvistað eftirlitshlutverki sínu til þeirra aðila sem eftirlit er haft með.“
Frestur til að skila umsögn rann út 21. júlí síðastliðinn og eru nú unnið úr þeim bárust. Alls bárust níu umsagnir. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Kristján Loftsson, fyrir hönd Hvals hf., hafa í umsögnum sínum sagt breytingartillögu ráðherra skorta lagastoð.