Viðar Snær Gunnarsson, skipstjóri á Akurey AK-10, var léttur í lund er hann ansaði símanum í brúnni í gær enda hafði tekist að ná fullfermi á fjórum og hálfum sólarhring. Um er að ræða jómfrúartúr Viðars Snæs sem skipstjóra á skipinu og kveðst hann ekki geta kvartað yfir svona góðu fiskeríi í upphafi skipstjórnarferilsins.
Ísfisktogarinn Akurey, sem Brim hf. gerir út, var staddur vestur af Kópanesi á Vestfjörðum á leið til hafnar í Reykjavík með tæp 190 tonn þegar blaðamaður sló á þráðinn.
„Við fórum beint út á Hala í byrjun túrs. Þar var karfi og við tókum tvö höl en þurftum síðan að forðast hann. Við fórum austar í Djúpkrók og svo út á Þverálshorn, þar var fín veiði og við vorum um 12 tíma. Við fikruðum okkur síðan aftur í áttina að Halanum og var bara fínasta veiði bæði í þorski og ufsa, smávegis af karfa. Við þurftum að passa okkur smávegis á karfanum, hann er mjög öflugur þarna. Svo fórum við að grunnslóðinni og nudduðum upp ýsu, enduðum á Nesdýpinu. Við erum bara á leiðinni í land með fullfermi,“ segir Viðar Snær.
Brim hf. gerir Akurey AK-10 út.
mbl.is/Þorgeir Baldursson
Djöfulli gott
Það var áskorun að ná ufsanum segir skipstjórinn. „Ufsinn er erfiður, við náðum að kroppa upp um 34 tonn af ufsa á móti 90 tonnum af þorski, um 40 tonn af karfa og 11 tonn af ýsu.
Þetta er búið að vera fínasta veiði í veðurblíðu,“ segir Viðar Snær. Hann segir alla um borð sátta með aflabrögðin. „Fjórir og hálfur sólarhringur á veiðum og komið fullfermi, það er bara djöfulli gott. [...] Svo er gaman að segja frá því að þetta er jómfrúartúrinn minn sem skipstjóri. Það er helvíti gott.“
Það styttist óðum í nýtt fiskveiðiár en þá mun taka gildi ný úthlutun aflaheimilda á grundvelli ráðgjafar Hafrannsóknastofnunar. Viðar Snær segir áhyggjuefni að ráðgjöf í karfa hafi minnkað um 20% milli fiskveiðiára og tekur þannig undir sjónarmið kollega síns, Eiríks Jónssonar, skipstjóra á Akurey, en Eiríkur hefur gagnrýnt ráðgjöfina. „Það er karfi um allan sjó. Maður sér það alla leið norður á Hala. Maður er mikið í því að forðast karfann,“ segir Viðar Snær.
Gert er ráð fyrir að Akurey haldi til veiða á ný að lokinni löndun í Reykjavík, líklega föstudagskvöld.