Sæbýli mun nýta jarðhita og borholusjó til að skapa kjöraðstæður fyrir sæeyrnaeldi. Sæeyru þykja lúxusmatur í Japan og Kína og í Frakklandi eru þau elduð með svipuðum hætti og sniglar og humar.
Markmið Sæbýlis er að framleiða og selja hágæðasæeyru, alin við einstök umhverfisskilyrði á Íslandi. Sæbýli notast við fullkomna eldisstöð þar sem hafa má fulla stjórn á vaxtarskilyrðum sæeyrnanna. Gangi allt að óskum, kunna íslensk sæeyru að verða að dýrmætri útflutningsafurð en í dag kostar kílóið af sæeyrum á bilinu 60 til 80 evrur.
„Í fyrstu framleiðum við ekki meira en 200 tonn en ef haft er í huga að verðið á sæeyrum er fimm- eða sexfalt hærra en verðið á eldislaxi, þá er verðmæti þess sem við seljum á markað fyrsta árið á við þúsund tonn af laxi,“ segir Sigurður Pétursson stjórnarformaður Sæbýlis. Heildarframleiðsla sæeyrna á heimsvísu er í kringum 200.000 tonn.
Sæeyru þykja mikil sælkeravara í Asíu, einkum í Japan og Kína. „Sæeyru eru jafnan dýrasti rétturinn á matseðli sushi-veitingastaða og sá réttur sem Japanir og Kínverjar bera á borð fyrir sína allra bestu gesti eða þegar haldnar eru mikilvægar veislur,“ útskýrir Sigurður en kokkarnir í Asíu hafa það fyrir sið að skera sæeyrun niður fersk.
Frakkar eru líka hrifnir af vörunni og elda hana ekki ósvipað og snigla eða humar, með miklu magni af lauk og smjöri. „Bragðið er mjög sérstakt og minnir helst á hörpudisk en er með miklu þéttara bit. Mér finnst sæeyrað sérstaklega bragðgott eldað á franska vísu og hafði sæeyru í matinn á mínu heimili síðustu jól,“ segir Sigurður.
Sæeyrnaeldi Sæbýlis hefur haft nokkuð langan aðdraganda en fyrirtækið hefur síðasta áratuginn verið með tilraunaeldi á Eyrarbakka. Sögu tilrauna með þessa verðmætu sæsnigla má hins vegar rekja aftur um þrjá áratugi. „Þá flutti Ingvar Níelsson inn fyrstu sæeyrun og gerðar voru prófanir með eldi hjá Hafrannsóknastofnun að Stað nálægt Grindavík,“ segir Sigurður. „Hingað til hefur sæeyrnaeldi hér á landi ekki orðið að þeim iðnaði sem vonir hafa staðið til.“
Fyrstu skrefin í starfsemi Sæbýlis voru að flytja inn góða eldisstofna og býr fyrirtækið í dag að góðum klakstofni af tveimur eftirsóttustu tegundum sæeyrna. Stöndugir bakhjarlar standa að baki verkefninu og eru Eyrir Sprotar og Eyrir Ventures þar kjölfestufjárfestar.
Nær öll sæeyru sem fást á markaði í dag eru ræktuð og fer eldið einkum fram í netaeiningum í sjó. „Ásóknin var það mikil að stofnin veiddist nærri því upp og eru veiðar á villtum sæeyrum í dag bannaðar í flestum ríkjum,“ upplýsir Sigurður og bætir við að eftirspurnin sé langt umfram framboð. „Umhverfisbreytingar í sjó gera eldisstöðvum lífið leitt en langstærstu áhættuþættirnir í eldinu eru hækkandi hitastig í sjó og aukin tíðni eiturþörungablóma. Okkar aðferð umbyltir hins vegar algjörlega eldi á sæeyrum.“
Eldisstöð Sæbýlis er í Grindavík en eldið fer alfarið fram á landi og nýtir stöðin bæði jarðhita og borholusjó sem hraunið hefur síað. Sjórinn úr borholunum er hitaður upp í 18-22°C sem er kjörhitastig fyrir sæeyru. „Við notum svokallað lóðrétt eldiskerfi sem þekkt er í grænmetisrækt og vaxa sæeyrun í n.k. hillum sem sjórinn flæðir um,“ útskýrir Sigurður en þurrkaður íslenskur þari er notaður sem fóður.
Sigurður býst við mikilli skilvirkni í sæeyraeldinu: „Í laxeldi er fóðurstuðullinn allt að 1,2 sem jafngildir því að fyrir 1,2 kg af fóðri fáist 1 kg af laxi. Í sæeyrunum er stuðullinn hins vegar ekki nema 0,6 til 0,7. Er fóðurnotkunin því mjög góð og þar auki er sæeyrnafóðrið ódýrara en það sem notað er í laxeldi,“ segir Sigurður en það tekur um þrjú til fjögur ár fyrir sæeyrað að ná réttri stærð fyrir markað. Fullvaxið sæeyra er um 80 til 100 gr að þyngd og markaðsvaran er lifandi snigill, þar sem skelin er hluti af vörunni.
Íslensku sæeyrun ættu að hafa ágætis forskot á sæeyru annars staðar frá og bendir Sigurður á að framleiðsluaðferð Sæbýlis hafi lítið kolefnisspor en þarinn sem notaður er sem fóður er nýttur með sjálfbærum hætti og fangar mikið magn koltvísýrings úr hafinu. „Við getum hreykt okkur af hreinleika vörunnar og gæðum fóðursins, en allt eldið er knúið áfram af grænni raforku,“ segir Sigurður og bætir við að þau sæeyru sem fyrirtækið hefur þegar fullræktað til að sannreyna ræktunarafurðina, hafi fengið mjög góð viðbrögð hjá kaupendum í veitingageiranum. „Eldisaðferðin ætti líka að gefa okkur meiri stöðugleika en sambærilegt eldi í sjó, og með nákvæmri stýringu á öllu framleiðsluferlinu má vænta minni affalla og lægri framleiðslukostnaðar.“
Á þessu ári verður það helsta verkefni félagsins að setja upp klakstöðina í Grindavík sem mun standa undir framleiðslu á 2,5-3 milljónum sæeyrnalirfa sem er fullnægjandi fyrir áframeldi á 200 tonnum af markaðsafurð á þremur til fjórum árum. „Næsta skref verður síðan að byggja undir áframeldisframleiðsluna en núverandi húsnæði ætti að duga okkur vel næstu tvö árin eða svo. Það er því ekki von á fyrstu iðnaðarframleiðslu okkar fyrr en á seinni hluta 2025 en skelrækt, líkt og annað lagareldi, krefst þolinmæði og góðs starfsfólks, góðs klakstofns og góðra umhverfisaðstæðna, en allt þetta höfum við,“ segir Sigurður.
Það lítur út fyrir að ekki verði nokkur vandi að finna kaupendur að sæeyrunum og segir Sigurður að erlend fyrirtæki hafi þegar sett sig í samband í von um að tryggja sér aðgang að vörunni. „Þegar kemur að því að velja markaði, hugsa ég að við byrjum á svæðunum næst okkur og sækjum inn á Frakkland og Bandaríkin. Þegar við höfum svo komið okkur vel fyrir þar, getum við sótt af meiri krafti inn á Asíu sem er langstærsti markaðurinn.“