Drög að hálfsársuppgjöri Iceland Seafood International (ISI) fyrir fyrsta árshelming 2022 gefa til kynna 1,8 milljóna evra tap fyrirtækisins fyrir skatt, jafnvirði 253 milljóna íslenskra króna. Örar og miklar verðhækkanir á öllum aðföngum á tímabilinu, sérstaklega öðrum ársfjórðungi, eru sagðar valda erfiðleikum.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í tilkynningu sem birt hefur verið á vef félagsins.
Þar segir að miklar áskoranir hafi verið í rekstrinum hjá Norður-Evrópu-deild fyrirtækisins. „Sú deild byggir að mestu á sölu til smásöluaðila en það tekur lengri tíma að skila verðhækkunum til viðskiptavina í smásölu en veitingaþjónustu. Miklar hækkanir á laxi höfðu einkum áhrif á afkomu á Írlandi á tímabilinu. Þessi verð hafa nú jafnast út, á sama tíma hefur kostnaðaraukningunni verið komið yfir á viðskiptavini. Því er gert ráð fyrir að afkoma starfseminnar á Írlandi verði aftur komin í eðlilegt horf frá þriðja ársfjórðungi 2022.“
Rekstur ISI í Bretlandi er sagður hafa fundið sérstaklega fyrir breyttum ytri aðstæðum. „Það mun taka lengri tíma og kosta meira en áður var áætlað að koma á stöðugleika í rekstrinum. […] Nýr en reyndur stjórnendahópur er að koma á stöðugleika í rekstrinum, lykilverkefni eru að leiðrétta söluverð og efla viðskiptin bæði við núverandi og nýja viðskiptavini. Miðað við núverandi horfur er gert ráð fyrir að tap verði á rekstrinum á öðrum árshelmingi 2022, en jafnvægi verði náð á fyrsta árshelmingi 2023.
Gengið vel í suðri
Fram kemur að rekstur Suður-Evrópu-deild félagsins hafi gengið vel, sérstaklega IS Iberica. „Eftirspurn eftir bæði þorskafurðum frá Íslandi og argentínskri rækju var góð á tímabilinu, sem skilaði sér í bæði góðri sölu og framlegð. Rekstur Ahumados Dominguez varð fyrir neikvæðum áhrifum af mikilli verðhækkun á laxi, sérstaklega á öðrum ársfjórðungi. En eins og á Írlandi er búist við að frammistaða Ahumados Dominguez verði aftur komin í eðlilegt horf á þriðja ársfjórðungi.“
Endanlegt hálfsársuppgjör verður kynnt eftir lokun markaða 17. ágúst.