„Ég er breskur en af hollenskum ættum. Við Judy Fowler eigum sameiginlegan vin og þaðan sprettur okkar kunningsskapur,“ segir Jan Overmeer í samtali við Morgunblaðið um breska togarann Epine og áhöfn hans, en Epine fórst úti fyrir Dritvík á Snæfellsnesi í aftakaveðri í mars árið 1948.
Með Epine fórust 14 af 19 manna áhöfn, fimm var bjargað og fundust aðeins lík þriggja þeirra sem fórust með togaranum, sem átti sér heimahöfn í Grimsby á Englandi. „Afi Judyar, William Birch, fórst með Epine. Lík hans fannst en hún hafði lengi vel ekki hugmynd um hvar hann var grafinn en okkur tókst svo að komast að því með aðstoð kirkjugarðanna á Íslandi eftir að Mary, dóttir mín, fór að kanna málið,“ segir Overmeer.
„Við höfum svo í nokkra mánuði verið að skipuleggja heimsókn Judyar til Íslands. Hún kom svo hingað á sunnudaginn og á mánudag ókum við til Dritvíkur þar sem flak togarans er enn sjáanlegt á ströndinni. Þetta fékk auðvitað mikið á hana, skiljanlega, og í dag [gær] fórum við og heimsóttum gröf afa hennar í Fossvogskirkjugarði. Hún fékk þá loksins tækifæri til að kveðja hann,“ segir Overmeer.
„Ég tengist þessum skipsskaða ekki beinlínis sjálfur, ég kom til Íslands sem ferðamaður á sínum tíma árið 2008 og heimsótti þá Dritvík og sá flak togarans. Við Judy kynntumst svo löngu síðar á Zoom, það var árið 2020 þegar allt var lokað í kórónuveirufaraldrinum,“ heldur Overmeer áfram en hann starfaði sjálfur sem tannlæknir, nú kominn á eftirlaun.
Þar segir hann Judy hafa sagt frá tengslum sínum við Ísland, afi hennar hefði farist með breskum togara við landið fyrir löngu. „Ég spurði af rælni hvort hann hefði verið í áhöfn Epine þar sem ég vissi af örlögum togarans frá Grimsby og áhafnar hans og öllum að óvörum svaraði hún því játandi,“ segir Overmeer.
„Svo hófum við þessa rannsókn okkar á því hvar afi hennar hefði verið lagður til hinstu hvílu, Mary dóttir mín setti sig í samband við kirkjugarðana og fann það loks út að hann lægi í reit E18 í Fossvoginum og séra Friðrik Hallgrímsson hefði haldið minningarathöfn um þá sem fórust með Epine,“ segir Overmeer.
Það var svo 14. nóvember 2020 sem Mary heimsótti Fossvogskirkjugarð. „Þegar hún kom þangað um miðjan vetur í hörkufrosti og hreinsaði mosa og gróður af legsteininum blöstu við henni stafirnir „WLLIAM“, illlæsilegir en nægðu okkur þó sem staðfesting þess að við hefðum fundið legstað afa Judyar,“ segir Overmeer enn fremur.
Judy Fowler hafi því loks fengið að kveðja afa sinn sem fórst með Epine í mars árið 1948 og kveður Overmeer þá stund hafa verið ákaflega hjartnæma. „Það er mikilvægt að fá að kveðja ástvini sína hinstu kveðju, ekki síst hafi þeir látist af slysförum,“ segir hann að lokum.