Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, vill leita leiða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda fiskiveiðiflotans og hraða orkuskiptum. Leggur hún til að heimila rafknúnum bátum að stunda strandveiðar sem og að heimila stærri krókaaflamarksbáta séu þeir knúnir vistvænum orkugjöfum.
„Þessi áform eru lögð fram til að gera íslenskum sjávarútvegi kleift að vera áfram í fremstu röð á alþjóðavísu með sjálfbærri auðlindanýtingu, verðmætasköpun og kolefnishlutleysi. Verkefnið er krefjandi og það eru mörg skref eftir, en mikilvægast er að byrja,“ segir Svandís í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.
Kynning á áformum um lagasetningu hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda og er um að ræða áform um tvö frumvörp.
Annað er frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða sem snýr að því að gera smábátum sem aðeins eru knúnir með rafmagni heimilt að taka þátt í strandveiðum. „Þannig gætu eigendur smábáta eða minni fiskiskipa séð hvata til þess að fjárfesta í nýjum bátum eða skipum eða gera breytingar á bátum og skipum sínum þannig að þau gangi fyrir rafmagni með drifrafhlöðum í stað jarðefnaeldsneytis. Frumvarpið fellur vel að meginmarkmiðum málefnasviðs sjávarútvegs um sjálfbæra auðlindanýtingu, verðmætasköpun og kolefnishlutleysi,“ segir í kynningunni er snýr að strandveiðibátum.
Hitt snýr að breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og breytingar á lögum um stjórn fiskveiða er snýr að því að heimila stærri báta innan krókaaflamarkskerfisins, háð því að þeir eru knúnir áfram af vistvænum orkugjöfum.
„Með auknum kröfum um að draga úr olíunotkun fiskiskipa hefur bæði verið horft til breytinga á skipsskrokknum og stærð skrúfu. Með því að stækka skrúfu samfara hæggengari vél hefur náðst umtalsverður árangur í olíusparnaði. Stærri skrúfa (aukið þvermál) þýðir hækkaðan aflvísi, sem leiðir til þess að óbreyttu að heimildir smærri togskipa til veiða innan 12 mílna fiskveiðilandhelginnar skerðast. Þá hafa stærðartakmarkanir áhrif á upptöku nýrra orkugjafa á krókaaflamarksbátum,“ segir í kynningu áforms um auknar stærðarheimildir.
Í tilkynningunni á vef stjórnarráðsins segir að við undirbúning málanna hafi verið stuðst við skýrslu um græn skref í sjávarútvegi. „Markmið stjórnvalda er að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja.“