Í ágústmánuði tókst starfsmönnum Hafrannsóknastofnunar að kortleggja 8.964 ferkílómetra hafsvæði vestan við Látragrunn, á Dohrnbanka og á Selvogsbanka. Alls hefur nú tekist að kortleggja 333.700 ferkílómetra af hafsbotni í efnahagslögsögu Íslands af 754.000, eða 44,3% hennar.
Þetta er meðal þess er fram kemur í færslu á vef Hafrannsóknastofnunar um leiðangur rannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar dagana 3. til 26. ágúst.
Þar segir að síðastliðin fimm ár hafi verið í gangi sérstakt átak um kortlagningu hafsbotnsins og að markmið átaksins sé að afla þekkingu sem getur verið grundvöllur frekari vísindarannsókna sem snúa að nýtingu, vernd og rannsóknir auðlinda í hafinu, á hafsbotni og undir hafsbotni. Í leiðangrinum var áherslan lögð á að kortleggja veiðislóðir á Vestfjarðamiðum í tengslum við veiðiálag síðastliðinna ára og togstöðva í verkefninu Stofnmælingu botnfiska.
„Í fyrsta hluta leiðangursins var fyllt upp í þekju vestan við Látragrunn, þar sem jökulgarðurinn sem nefndur er „Brjálaði hryggurinn“ eða „kattarhryggurinn“ var mældur árið 2011, í tengslum við hrygningarstöðvar steinbíts á Látragrunni og mögulegum búsvæðum kórala,“ segir í færslunni.
Þá sáust plógför ísjaka á allt að 600 metra dýpi í kantinum við hrygginn, en undan kantinum er 14 kílómetra langur hryggur sem liggur frá norðvestur til suðausturs og rís allat að 60 metra af hafsbotni. „Hugsanlegar aurkeilur sjást í kantinum á austanverðu mælingasvæðinu. Á dýpsta svæðinu er botnharkan mjög lág sem gefur til kynna að þar hefur töluvert magn af mjúku seti sest til í lægðum.“
Sigldi Árni Friðriksson síðan til norðvestur á Dohrnbanka þar sem annar hluti leiðangursins fór fram. Mörkin voru dregin miðlínu efnahagslögsögunnar og fjölgeislamælingar frá mælingaárinu 2002. „Miklar sviptingar í ástandi sjávar gerðu yfirferð fjölgeislamælinga mjög erfiða. Vegna veðurs tókst ekki að ljúka mælingum á Dohrnbanka, en til stóð að tengja þær saman við eldri mælingar í Grænlandssundi.“
Botnlag á Dohrnbanka er sagt mjög fjölbreytt og sjást í fjölgeislagögnum meðal annars stórir hryggir og farvegir sem kvíslast niður á víðáttumikla sléttu. Þetta eru talin mikil ummerki um plógför ísjaka.
Hafsvæðið á Selvogsbanka var þriðji liður leiðangursins en þar var mælt frá eldri mælingum Hafrannsóknastofnunar að 100 metra jafndýpislínu. „Vestan við Surtsey var mælt yfir mikið af smáum sæfjöllum sem áður hafa verið mæld með eingeislamæli. Sæfjöllin fylgja tveimur sprungustefnum annarsvegar í NV-SA og hinsvegar í NA-SV. Við 100 metra jafndýpislínuna er mikið hraun eða klöpp sem sést einnig á sjókortum. Með fjölgeislagögnunum er hægt að kortleggja útbreiðslu þess með mun meiri nákvæmni. Botnharka sýndi að umhverfis hraunið og víða á mælingasvæðinu norðanverðu er mikið af mjúku seti.“