Útflutningsverðmæti norskra sjávarafurða hafa aldrei verið jafn mikil og í ágúst þegar fluttar voru út afurðir fyrir 12,5 milljarða norskra króna, jafnvirði um 180 milljarða íslenskra króna. Um er að ræða 30% aukningu frá sama mánuði í fyrra, að því er fram kemur á vef norska sjávarafurðaráðsins (Norges sjømatråd).
Þar segir að það sem af er ári, s.s. fyrstu átta mánuði, hefur útflutningsverðmæti sjávarafurða aukist um 21,2 milljarða norskra króna frá því á síðasta ári, eða 29%, og nemur nú 94 milljörðum norskra króna. Það er jafnvirði um 1.354 milljarða íslenskra króna.
„Það er sérstaklega mikið magn og verð á laxi sem er drifkraftur útflutningsmetsins í ágúst. Þetta er besti einstaki mánuður allra tíma fyrir lax mælt í verðmæti, en ágústmet er í ufsa, urriða, ýsu og allan hvítfiskflokkinn,“ segir Børge Grønbech, starfandi framkvæmdastjóri norska sjávarafurðaráðsins.
Laxinn 70% verðmæta
Útflutningur á eldislaxi stendur fyrir rúmlega 70% útflutningsverðmætanna á fyrstu átta mánuðum ársins, eða því sem nemur rúmum 66 milljörðum norskra króna. Það þrátt fyrir að eldislaxinn sé aðeins 41,69% af útfluttu magni.
Alls skiluðu eldisgreinarnar 69,4 milljörðum norskur krónum, en fiskveiðar aðeins 24,6 milljörðum. Fiskveiðar Norðmanna hafa þó skilað tæplega 16% meiri útflutningsverðmætum á fyrstu átta mánuðum þessa árs en á sama tímabili í fyrra. Útflutt magn sjávarfangs sem veitt er hefur þó á sama tíma dregist saman um 70 þúsund tonn.
Metútflutningurinn er í takti við mikla hækkun markaðsverðs á sjávarfangi að undanförnu, en verð á laxi náði hámarki í apríl þegar meðalverð var 10,82 evrur á kíló. Það hefur hins vegar tekið að lækka ört síðan. Verð á þorski hefur þó haldist nokkuð stöðugt síðustu mánuði eftir mikla hækkun í upphafi árs.