Samtök skoskra uppsjávarafurðastöðva (e. Scottish Pelagic Processors Association, SPPA) kalla eftir brýnum aðgerðum stjórnvalda til að styðja fyrirtækin sem nú takast á við alvarlegum áhrifum stórhækkandi orkukostnaðar, leggja samtökin meðal annars til að tekin verði upp einhverskonar vinnsluskylda uppsjávarfisks sem landaður er í Skotlandi.
Þetta er meðal þess er fram kemur í tilkynningu á vef samtakanna.
SPPA er málsvari skoskra fyrirtækja sem vinna makríl, síld og kolmunna – og í bréfi sem sent var um mánaðamótin til m.a. Liz Truss, nýs forsætisráðherra Bretlands, var sagt frá því að greinin sé að „nálgast neyðarástandi og að þörf sé á mótvægisaðgerðum án tafar.“
Fyrirtækin sem eiga aðild að samtökunum hafa samanlagt um tvö þúsund starfsmenn, en starfsemin skapar einnig fjölda afleiddra starfa. Auk þess að framleiða vörur fyrir breska markaðinn skila þau Bretlandi um 150 milljónir punda í útflutningsverðmætum á ári hverju, um 24 milljarða íslenskra króna.
„Í krefjandi viðskiptaumhverfi þar sem meðlimir okkar eru nú þegar að upplifa aukinn kostnað á mörgum sviðum, þar á meðal umbúðum og flutningum, sem og áhrifum af völdum Brexit og Covid, höfum við nú orðið fyrir miklum orkukostnaði. Orkukrísan hefur alla jafna haft í för með sér yfir 300% aukningu á útgjöldum fyrir meðlimi SPPA. Sem dæmi má nefna að hjá sumum félagsmönnum hefur árlegur rafmagnsreikningur hækkað úr 950.000 pundum í 3,5 milljónir punda og hjá öðrum eru hækkanirnar enn meiri. Ljóst er að slíkar hækkanir eru ekki sjálfbærar og horfur virðast dökkar þar sem búist er við að verð haldi áfram að hækka,“ segir í bréfinu sem undirritað er af Robert Duthie, formanni SPPA.
Bréfið var einnig sent Rishi Sunak, sem þá var að berjast um leiðtogasætið við Truss, sem og Victoriu Prentis, ráðherra umhverfis-, matvæla- og dreifbýlismála, og Mairi Gougeon, ráðuneytisstjóra skoska dreifbýlismálaráðuneytisins, ásamt þingmönnum á breska þinginu og skoska þinginu.
„Ein aðgerð sem myndi hjálpa skoska uppsjávargeiranum væri að koma á kröfu um efnahagslega tengingu fyrir löndun skoskra skipa til Skotlands, sem myndi tryggja samfellt framboð til verksmiðja okkar á sama tíma og við erum að verða sífellt ósamkeppnishæfari við evrópska vinnsluaðila sem fá orkukostnað niðurgreiddan,“ skrifar Duthie. Hann bendir þó á að skoska ríkisstjórnin hafi boðað einhverjar niðurgreiðslur frá janúar 2023, en eftir eigi að koma í ljós hvernig framkvæmdinni verður háttað.
„Samtök okkar hvetja stjórnvöld til að viðurkenna þá alvarlega erfiðleika sem uppsjávarfiskvinnslan stendur frammi fyrir og styðja skjóta framkvæmd margvíslegra mótvægisaðgerða til að draga úr orkukostnaði okkar,“ segir í bréfinu. Er fullyrt að verði ekki komið til móts við brýnar þarfir fyrirtækjanna vegna orkukostnaðar mun það geta valdið verulegu tjóni til langs tíma sem myndi um sinn skaða skoska og breska hagkerfið.