„Ég svara þessu bara með einföldum hætti. Þetta er bara rugl,“ segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson (Binni), framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, er hann er inntur álits á fullyrðingum þess efnis að íslenskar útgerðir séu að landa síld sem makríl.
Audun Maråk, framkvæmdastjóri samtaka norskra útgerðarmanna (Fiskebåt), hefur sakað Íslendinga og Færeyinga um að landa síld sem makríl í þeim tilgangi að geta veitt meiri síld og réttlætt hlutdeild í makrílveiðunum.
„Margur heldur mig sig,“ segir Binni. „Fólk sem kemur með svona ásakanir, er oftast nær fólk sem hefur stundað eitthvað slíkt sjálft. Þetta er bara fullkomið rugl, alla vega hvað okkur varðar. Við höfum engin tök á þessu. Það er reglulega staðið yfir okkur frá Fiskistofu og við erum að gera þetta rétt. Það er ekki flóknara.“
Hann segir ekki í fyrsta skipti sem íslenskar uppsjávarútgerðir sæta svona ásökunum. „Ég vil bara minna á það að þegar við Vestmannaeyingar vorum að byrja á því að veiða makríl, þá sátu við undir ásökunum af hálfu Íslendinga, Norðmanna og Evrópusambandsins um að við værum að veiða síld og skrá sem makríl. Það kom hingað sendinefnd frá Noregi og Evrópusambandinu til að sjá löndun hjá okkur og þeir sáu bara að þetta var rétt,“ útskýrir Binni.
Fiskur syndir náttúrulega
Eitt af því sem Maråk hefur bent á, máli sínu til stuðnings, er að norsk skip hafi farið á svæði við línuna milli alþjóðlegs hafsvæðis og Jan Mayen þar sem íslensk skip hafi tilkynnt um makrílveiði. Norsku skipin fundu þó lítið af makríl á svæðinu og var þar aðallega síld að finna.
Binni gefur lítið fyrir þessa dæmisögu. „Fiskur syndir náttúrulega til og frá,“ segir hann og virðist gáttaður á orðum Maråks. Hann er hins vegar ekki hissa á því að erfitt hafi verið að finna makríl. „Staðan er bara sú að vegna samningsleysi milli þjóðanna er stöðugt verið að veiða of mikið af makríl.“