Iðnver og Arctic Fish skrifuðu undir stóran samning á Sjávarútvegssýningunni í Laugardalshöll um uppsetningu á lágþrýstiþvottakerfi fyrir nýtt laxasláturhús í Bolungarvík, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.
Samningurinn er sagður umfangsmikill og nær hann meðal annars til uppsetningu þvottakerfa fyrir vélar, færibönd og kassa. Þvottakerfin, sem eru frá System Cleaners í Danmörku, geta bæði verið alsjálfvirk eða handvirk.
Nýja laxasláturhúsið í Bolungarvík er í 2.700 fermetra húsnæði og sérhannað fyrir slátrun og fullvinnslu lax úr sjókvíaeldi Arctic Fish. Stefnt er að því að sláturhúsið verði tæknivæddasta í heimi með öllum nýjasta búnaði sem völ er á. Sláturhúsið mun geta annað allri framleiðslu laxeldis á Vestfjörðum og meira til, allt að 120.000 tonn á ári.
Iðnver þjónustar fyrirtæki í sjávarútvegi, matvælaiðnaði og öðrum iðnaði. Fyrirtækið útvegar meðal annars íhluti í færibönd, þvottakerfi, lausnir fyrir starfsmannaaðstöðu auk rekstrar- og efnavöru ásamt vélbúnaði fyrir hreinsun á hverskonar fráveituvatni.
Arctic Fish hefur að undanförnu gert nokkra samninga um tækjakaup vegna uppbyggingarinnar á Bolungarvík. Á sjávarútvesgsýningu sem haldin var í Kópavogi í júni var til að mynda undirritaður samningur við Samey Robotics sem felur í sér kaup og uppsetningu á kerfi sem getur staflað allri framleiðslu Arctic Fish á bretti með tveimur sjálfvirkum róbotakerfum.
Á sömu sýningu í Kópavogi var undirritaði Arctic Fish einnig samning við Micro ehf. um sölu, framleiðslu og uppsetningu á flokkunar- og pökkunarlínu.
Kerfið frá Micro byggist á því að laxinn er fluttur frá kælitanki að innmötunarstöð þar sem hann er gæðametinn. Hver fiskur fær gæðamerki sem fylgir honum í gegnum allt kerfið. Lax-inn fer svo að vigtareiningu, þar sem þyngdin bætist við gæðamerkið. Laxinn er flokkaður í sjálfvirkum pökkunarflokkara eftir gæðum og þyngd og búnir eru til skammtar. Pökkunar-flokkarinn setur skammtinn í kassa sem einnig hefur verið vigtaður inn í kerfið. Kassinn fær límmiða með öllum upplýsingum um vöruna. Að lokum fær hver kassi vigtaðan ísskammt, áður en honum er lokað.