Ekki hafa orðið miklar skemmdir á eignum eða slys á fólki hjá Eskju og Síldarvinnslunni í ofsaveðrinu. Þó truflaði framleiðslu að rafmagnið hafi farið af Austurlandi.
„Við sluppum þokkalega og engar umtalsverðar skemmdir,“ segir Páll Snorrason, framkvæmdastjóri sjávarútvegsfyrirtækisins Eskju á Eskifirði, er hann er spurður um hvaða áhrif ofsaveðrið hefur haft á reksturinn.
„Við lentum í brasi með gamla skipið okkar, Jón Kjartansson SU 311, sem liggur á Reyðarfirði. Hann var að losna frá bryggjunni […] en það slapp til og fór betur en á horfðist. Við erum ekki að nota þetta skip. Það er komið til ára sinna og er til sölu,“ útskýrir Páll.
Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar.
mbl.is/Sigurður Bogi
„Það er ekkert alvarlegt tjón hjá okkur enn sem komið er,“ segir Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar á Neskaupstað. „Við vorum að framleiða bæði í frystihúsinu og fiskimjölsverksmiðjunni í gær þegar rafmagnið datt út. Það raskaði lítillega hjá okkur vinnslum en allt er komið í gang núna.“
Þá fuku nokkur fiskikör hjá frystihúsi félagsins á Seyðisfirði, en ekki urðu miklar skemmdir á eignum eða slys á fólki. „Heilt yfir höfum við sloppið ágætlega enn sem komið er,“ segir Gunnþór.
Hefja síldveiði í kvöld eða nótt
Síldarvertíðin var hafin þegar veðurofsinn skall á og létu uppsjávarskipin sig hverfa enda voru slæm skilyrði til veiða á síldarmiðunum. Sjólagsspá Vegagerðarinnar gerir ráð fyrir áframhaldandi mikilli ölduhæð fram eftir degi en staðan á að batna í kvöld og í nótt.
„Varðandi síldina þá fara okkar skip út í dag eða kvöld eða þegar veðrið lagast. Við eigum eftir að veiða og vinna um 4.000 tonn af okkar heimildum í norski-íslensku síldinni. Okkur hefur gengið mjög vel að ná síldinni en hún er nálægt og veiðin búin að ganga vel,“ segir Páll.
Gamli Jón Kjartansson og fleiri skip við bryggju á Reyðarfirði.
mbl.is/Sigurður Bogi