Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) hefur ákveðið að lækka ráðlagðan hámarksafla í norsk-íslenskri síld um 15% og 2% í makríl. Ráðgjöf ICES gerir hins vegar ráð fyrir 81% hækkun í hámarksafla kolmunna.
Vegna kerfisbundinnar ofveiði stofnanna þriggja er talið að mögulegt sé að ráðgjöfin uppfylli ekki varúðarsjónarmið, sem um sinn sagt getur orðið til þess að hrygningarstofn fari undir varúðarmörk og að stofnarnir verði ekki lengur sjálfbærir, að því er segir í ráðgjafarskjölum sem birt hafa verið á vef Hafrannsóknastofnunar.
ICES gaf út ráðgjöf sína fyrir uppsjávarstofna á Norður-Atlantshafi í dag. Ráðgjöfin nær til Grænlands, Íslands, Færeyja, Bretlands, Evrópusambandsins, Noregs og Rússlands, en engir samningar eru milli ríkjanna um hlutdeildir þeirra í veiðunum.
ICES leggur til að afli í norsk-íslenskri síld á árinu 2023 verði ekki meiri en 511 þúsund tonn, sem er 15% skerðing frá fyrri ráðgjöf þar sem hámarksaflinn var 599 þúsund tonn.
„Gert er ráð fyrir að 2016 árgangurinn verði ráðandi í aflanum árið 2023 og árgangar þar á eftir eru metnir slakir,“ segir í ráðgjafarskjalinu. Þá er áætlað að heildarafli ársins 2022 verði um 828 þúsund tonn sem er 28% umfram ráðgjöf.
Vakin er athygli á að veiðar úr stofninum hafa verið umfram ráðgjöf síðan 2013 og þá á bilinu 4% til 42%.
„Við prófanir á aflareglunni (ICES, 2016) var ekki tekið tillit til að afli væri kerfisbundið umfram ráðgjöf samkvæmt aflareglu. Við núverandi umframveiðar uppfyllir aflareglan mögulega ekki varúðarsjónarmið. Þetta getur leitt til aukinnar áhættu á að hrygningarstofnstærð fari undir varúðarmörk, sem leiðir til minni afrakstrar til lengri tíma litið, og að nýting stofnsins verði ekki lengur sjálfbær," segir í ráðgjafarskjali fyrir tegundina.
Athygli vekur að þrátt fyrir að makríll hafi verið ofveiddur í áraraðir – líklega 42% umfram ráðgjöf 2022 – lækkar ráðgjöf ICES fyrir tegundina um aðeins 2% milli ára. Telur stofnunin að afli uppsjávarskipa strandríkjanna eigi ekki að verða meiri en 782 þúsund tonn.
„Veiðar úr stofninum hafa að meðaltali verið 41% umfram ráðgjöf síðan 2010. […] Við núverandi umframveiðar uppfyllir því þessi ráðgjöf sem byggir á fiskveiðidauða sem gefur hámarksafrakstur mögulega ekki varúðarsjónarmið,“ segir í ráðgjafarskjalinu fyrir makríl.
Bent er á að makríll hefur gengið á Íslandsmið í fæðuleit yfir sumarmánuðina síðan kringum 2005. Niðurstöður árlegs uppsjávarvistfræðileiðangurs í NA-Atlantshafi benda til minnkandi magns makríls innan íslenskrar lögsögu frá árinu 2018 til 2021 en magnið jókst sumarið 2022.
Ráðgjöf ICES vegna kolmunnaveiða ársins 2023 nemur 1.360 þúsund tonnum, en á ráðgjöfin fyrir 2022 nam 753 þúsund tonnum og eykst ráðlagður hámarksafli því um 81% milli ára.
„Niðurstöður stofnmats sýna miklar breytingar í fiskveiðidauða, hrygningarstofnstærð og nýliðun. Stofnmatið í ár metur stærð 2020 árgangsins (nýliðun 1 árs árið 2021) í sögulegu hámarki (71.6 milljarðar) en árgangurinn var einungis metinn 22.8 milljarðar í stofnmati síðasta árs,“ segir í ráðgjafarskjalinu.
Áætlað er að heildarafli ársins 2022 verði 1,1 milljón tonn sem er 47% umfram ráðgjöf. Frá árinu 2018 hafa veiðar umfram ráðgjöf ICES numið 23-33%. Gildir því sama um ráðgjöf fyrir kolmunna og fyrir makríl og norsk-íslenska síld, sem sagt að hún taki ekki tillit til ofveiða strandríkjanna.