„Veiðar og vinnsla ganga vel, gæði aflans eru góð og við fáum hátt verð fyrir aflann“ segir Bruno Leduc, framkvæmdarstjóri frönsku útgerðarinnar Euronor, í færslu á vef Slippsins Akureyri.
Togarinn Fisher Bank, sem Euronor gerir út, hefur nú verið á veiðum í rúma fjóra mánuði frá því að lokið var við yfirhalningu þess á Akureyri. Sett var upp ný vinnsla í skipinu og umfangsmiklu viðhaldi sinnt.
Seint á síðasta ári gerðu Slippurinn Akureyri og Euronor um hönnun, smíði og uppsetningu á vinnslum í tvö skip félagsins, Fisher Bank og Otter Bank, samhliða því að farið yrði í ýmis viðhaldsverkefni.
Skipin eru gerð út Frá Boulogne-Sur-Mer í Frakklandi en þau hétu áður Rokur og Lerkur og voru smíðuð 1999 og 2000 fyrir færeyska útgerð af Karstensens. Fram kemur i umfjöllun tímaritsins Hook & Net að skipinásamt uppfærslu þeirra hafi kostað um 14 milljónir evra, jafnvirði tæplega tveggja milljarða íslenskra króna.
Tvær slægingarvélar eru um borð í sitt hvoru skipinu og er því mikill meirihluti aflans vélslægður. Í færslunni er vakin athygli á að slægingarvélarnar skera ekki á slagæðar og verður því blæðing þróttminni í hverjum fiski og blóðtæming erfiðari.
„Í skipið var sett Sæljón frá Slippnum Akureyri sem er stýrt blæðingar- og þvottaferli sem tryggir góða blóðtæmingu og afar góða aflameðferð. Vélslægði aflinn fer eftir blæðingar- og þvottaferli í gegnum stærðarflokkara frá Slippnum Akureyri sem er fyrsti flokkari sinnar tegundar. Þaðan er aflinn vigtaður sjálfvirkt í skammta fyrir hvert fiskiker í lest skipsins. Þegar skammtur í ker kemur í lest eru prentaðar upplýsingar sem fylgja hverju keri með upplýsingum um fisktegund, magn, dagsetningu og svo framvegis, líkt og þekkist við frystingu á Íslandsmiðum,“ segir í færslunni.
Þá segir að í skipið hafi einnig verið komið fyrir krapavél frá KAPP til kælingar í lest og í vinnslu.
„Áhöfnin er ánægð með hönnunina á vinnsludekkinu. Við erum að landa á markaði í Danmörku og Frakklandi auk þess sem við höfum verið sigla til Færeyja. Við finnum að eftirspurnin eftir fiskinum frá Fisher Bank hefur aukist“ segir Bruno í færslunni á vef Slippsins.
Magnús Blöndal sviðsstjóri framleiðsludeildar Slippsins kveðst ánægður með verkefnið og samstarfið með Euronor á meðan á verkinu stóð. „Verkið var frábrugðið hinu hefðbundna verkefni Slippsins að því leyti að reglugerðir og vinnulag innan ESB er frábrugðið því sem við eigum að venjast hér á heimamiðum.“
Hann segir jafnframt aukna eftirspurn eftir íslenskum lausnum í erlend fiskiskip. „Umsvifin hafa aukist og eru fleiri en eitt erlent verkefni í pípunum núna. Við finnum fyrir miklum áhuga á okkar lausnum í aflameðferð bæði hér heima og erlendis þar sem vörulína okkar hefur stækkað mikið á undaförnum árum.“