Matís heldur fund um framhaldsvinnslu á laxi í samstarfi við Þekkingarsetur Ölfuss í ráðhúsinu í Þorlákshöfn í næstu viku undir merkjum verkefnisins Nordic Salmon. Tilgangurinn er að „nýta þekkingu frá velgengni þorskvinnslu á Íslandi yfir í norrænan laxaiðnað“, að því er segir í færslu á vef Matís.
Fundinum, sem fram fer 19. október, er ætlað að tengja saman og styðja við fjölmarga hagsmunaaðila sem starfa í laxeldisiðnaði á Norðurlöndum, með áherslu á að kanna valkosti og hagkvæmni fyrir framhaldsvinnslu laxaafurða. Í þessum hópi eru laxeldisstöðvar, sölu- og markaðsaðilar, tæknihönnuðir, framleiðendur vinnslutækja, rannsóknarhópar og flutningafyrirtæki.
Þá segir að með Nordic Salmon verkefninu sé stefnt að því að „koma á fót neti sérfræðinga til að greina heildstætt hvort framhaldsvinnsla á laxi sé fýsilegur kostur á Norðurlöndunum. Hópurinn mun síðan meta framleiðsluskala og greina nauðsynlega verkþætti og tillögur til að ná heildarmarkmiðinu.“
Hugmyndin að baki verkefnisins er eins og fyrr segir að nýta þekkingu sem skapast hefur við vinnslu hvítfisks til að byggja upp aukna fullvinnslu eldislax á Norðurlöndunum og þannig auka verðmætasköpun og störf. „Með því að nota nútímatækni vinnsluverksmiðja og gera neyslueiningar hagkvæmari, má auka virði í norrænum laxaiðnaði. Flakaafurðir og bitar úr laxi munu lækka útflutningskostnað í samanburði við heilan slægðan lax. Einnig mun það auka staðbundna nýtingu og vinnslu á aukaafurðum, svo sem afskurðir, bein og hausar, auk þess sem kolefnisfótsporið minnkar.“