Fluttar voru út eldisafurðir fyrir fimm milljarða króna í september og er um að ræða stærsta septembermánuð í útflutningsverðmætum eldisafurða frá upphafi. Á fyrstu níu mánuðum ársins nam útflutningsverðmæti eldisafurða 33,4 milljörðum króna sem er 22% aukning frá sama tímabili í fyrra.
Þetta má lesa í greiningu Radarsins sem byggir á bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands fyrir september.
Þar er vakin athygli á að aukningin sé enn meiri ef tekið sé tillit til gengisbreytinga og þá er hún rúm 29%. Vísað er til þess að gengi krónunnar var að jafnaði 4% sterkara á fyrstu 9 mánuðum ársins en á sama tímabili í fyrra.
Í bráðabirgðatölum Hagstofunnar eru eldisafurðir tilgreindar í heild en ekki eftir tegundum eða magni. Þó má gera ráð fyrir að aukninguna megi rekja til aukningu í laxeldi eins og undanfarinna mánuði, að því er segir í greiningunni.
„Þannig jókst útflutningsverðmæti á laxi um 30% á milli ára á föstu gengi á fyrstu 8 mánuðum ársins. Hlutdeild lax af útflutningsverðmætum eldisafurða í heild var um 83% á fyrstu 8 mánuðunum samanborið við tæp 77% á sama tímabili í fyrra. Þessa aukningu í útflutningsverðmætum má nánast alfarið rekja til hækkunar afurðaverðs, enda stóð útflutt magn svo til í stað á milli ára. Þannig hefur markaðsverð á laxi náð sögulegum hæðum á árinu og hefur að jafnaði verið hærra á þessu ári en það hefur áður verið.“
Útflutningsverðmæti silungs, sem er að mestu bleikja, hefur dregist saman um 22% á fyrstu átta mánuðum ársins. „Það má alfarið rekja til samdráttar í útfluttu magni, en hækkun afurðaverðs vegur þó eitthvað upp á móti.“ Hið sama á við senegalfúru en útflutningsverðmæti tegundarinnar dregst saman um 5% en útflutt magn um 14%.
Í tilfelli frjóvgaðra hrogna jókst útflutningsverðmæti þeirra um 9% og útflutningur að magni til hefur skroppið saman um tæp 2%. „Það er því nokkuð ljóst að hækkun afurðaverðs hefur verið ráðandi í aukningu útflutningsverðmæta eldisafurða á fyrstu 8 mánuðum ársins,“ segir í greiningu Radarsins.