Karl Ásgeirsson hefur tekið við sem viðskiptastjóri Baader á Íslandsmarkaði og er sem slíkur aðaltengiliður við íslenskar vinnslur, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.
Karl tekur við af Jochum Ulrikssyni sem látið hefur af störfum hjá Baader Íslandi ehf. „Jochum hefur stýrt fyrirtækinu af lipurð í áraraðir og byggt upp gott samband við viðskiptavini um allt land. Fyrirtækið hefur þjónað íslenskum sjávarútvegi í meira en 60 ár og hefur verið á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki í 12 ár í röð, þar að meðal í ár,“ segir í tilkynningunni.
Nokkrar breytingar hafa átt sér stað frá því að Baader festi kaup á Skaganum 3X en með því urðu Skaginn og Baader Ísland systurfyrirtæki undir sama forstjóra.
Í tilkynningunni er rifjað upp að upphaf starfseminnar megi „rekja til fimmta áratugarins þegar faðir og afi Jochums stofnuðu fyrirtæki til að þjónusta Baader vélar á Íslandi. Baader í Þýskalandi varð strax hluthafi og hefur Baader Ísland sinnt markaðinum æ síðan. Við kaup Baader-samstæðunnar á Skaganum 3X árið 2022 var tekin sú ákvörðun að sameina krafta Baader Íslands og Skagans 3X. Markmiðið er að koma á enn öflugri þjónustu við viðskiptavini og styrkja sameiginlega nýsköpun í sjávarútvegi.“
Þá segir að reynsla Karls af íslenskum sjávarútvegi gefi honum góða innsýn í þær áskoranir sem innlendir vinnsluaðilar standa frammi fyrir. „Ég legg áherslu á að kynnast viðskiptavinunum með heimsóknum og gefa mér tíma til að skilja þeirra áskoranir og finna þannig réttar lausnir fyrir hvern og einn,“ segir Karl sem unnið hefur hjá Skaganum 3X í yfir 15 ár. „Fyrirtækin mega eiga von á því að ég banki upp á og kynni mig til leiks. Ég vil þakka þeim sem nú þegar hafa tekið á móti mér og átt við mig samskipti í nýju starfi.“