Ástæða þess að grænlenska línuskipið Masilik strandaði við Gerðistanga á Vatnsleysuströnd kvöldið 16. desember í fyrra er „aðgæsluleysi og vanræksla við stjórn skipsins“, að því er fram kemur í skýrslu Rannsóknanefndar samgönguslysa (RNSA).
Yfirstýrimaður skipsins sagðist við rannsókn málsins ekki hafa verið að fylgjast með dýptarmæli eða ratsjá skipsins. Hann hafi „setið í skipstjórnarstólnum og horft út og ekki áttað sig á hvar hann væri staddur.“
Í skýrslunni segir að daginn sem skipið strandaði hafi það verið á leið til Hafnarfjarðar og veðurskilyrði þokkaleg. Siglt var út úr skilgreindum siglingaleiðum við Reykjanes til að sigla í hringi og með því koma þvottavatni í lensibrunna. Einnig var skipið látið reka með vind á bakborðshlið í sama tilgangi.
Skipstjóri afhenti síðan yfirstýrimanni stjórn skipsins klukkan fjögur síðdegis rúmar fjórar sjómílur frá landi. Þá var skipið á 3,8 hnúta ferð í 145°rv. Fyrirmæli skipstjóra til vakthafandi stýrimanns voru að sigla hæga ferð austlæga stefnu í átt að Hafnarfjarðarhöfn og var ætlunin að leggjast við bryggju þar um klukkan tíu það kvöld.
Á tímabilinu 16:02 til klukkan 16:24 snerist skipið á lítilli ferð en klukkan 16:28 var skipið komið á stefnuna 136°rv á þriggja hnúta hraða. Skipið bætti við ferð og sigldi á 3,5 til 3,8 hnútum þar til það tók niðri í Knarrarnesfjöru um það bil 600 metra frá landi klukkan 18:38, að því er fram kemur í skýrslunni. Þá segir jafnframt að það hafi liðið 24 mínútur frá því að skipið strandaði og þar til að haft var samband við Landhelgisgæslu Íslands.
„Samkvæmt framburði yfirstýrimanns vék hann af stjórnpalli a.m.k. tvisvar sinnum að sinna þvotti og að láta skipverja skrifa undir tollskýrslu. Samkvæmt framburði heyrði hann viðvörun frá sjálfstýringu meðan hann var niðri og hélt að sjálfstýringunni hefði slegið út. Hann taldi að einhver þeirra sem var á stjórnpalli hefði kvittað fyrir villuboðið,“ segir í skýrslunni.
Fulltrúi RNSA fór ásamt tæknimanni um borð í skipið og aflaði gagna úr sjálfstýringu þess „en þar sem GPS tæki skipsins var ekki uppfært var ekki hægt að finna vísbendingar um að sjálfstýringin hefði slegið út eða sent frá sér villuboð. Slíkt er samt ekki hægt að útiloka.“
Þá segir að skipið hafi verið vel tækjum búið með dýptarmælum, ratsjá, plotterum og öðrum siglingabúnaði sem virkaði eins og til var ætlast. Þá bendi ekkert til að veður eða hafstraumar hafi haft teljandi áhrif á stefnu skipsins.
„Ástæða þess að skipið strandaði er aðgæsluleysi og vanræksla við stjórn skipsins,“ segir í nefndaráliti RNSA vegna málsins.
Eftir að kallað var eftir aðstöð Landhelgisgæslunnar mætti á staðinn varðskipið Freyja sem og dráttarbáturinn Hamri, en á þeim tíma uppgötvaðist að sjór var kominn í lestar skipsins og að olía hafði lekið í sjóinn. Áhöfn skipsins var því næst komið yfir í Freyju en þaðan fluttu björgunarskip Landsbjargara áhöfnina til Hafnarfjarðar.
Rétt fyrir eitt um nótt tókst með aðstöð björgunarsveita að koma taug milli Freyju og Masilik og tókst að draga skipið á flot um tveimur klukkustundum síðar. Varðskipið dró skipið til Hafnarfjarðar þar sem dráttarbátar komu skipinu að bryggju.
Masilik var síðar tekið í slipp í Reykjavík til að kanna skemmdir og þétta leka svo skipið gæti siglt út til viðgerðar. Masilik var síðan tekiuð í slipp í Danmörku þar sem unnið var við að lagfæra skemmdir á skipinu.