Alls voru fluttar út sjávarafurðir fyrri 288 milljarða króna á fyrstu 10 mánuðum ársins og hafa útflutningsverðmætin ekki verið meiri fyrstu 10 mánuðina á þessari öld. Um er að ræða 18% aukningu frá sama tímabili í fyrra, en aukningin er 23% í erlendri mynt. Bara í október nam útflutningsverðmæti sjávarafurða 30 milljörðum króna sem er 12% aukning frá sama mánuði í fyrra, en 17% aukning sé tekið tillit til gengisáhrifa.
Þetta kemur fram í greiningu Radarsins sem byggir á bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands um vöruskipti í október sem birtar voru í síðustu viku.
„Aukninguna í október má að stærstum hluta rekja til fiskimjöls. Nam útflutningsverðmæti þess um 3,6 milljörðum króna í október, sem er 85% aukning á milli ára á föstu gengi. Eins var ágætis aukning á frystum flökum (22% á föstu gengi), heilfrystum fiski (26%) og á afurðaflokknum „aðrar sjávarafurðir“ (33%), en þar undir koma loðnuhrogn við sögu. Minni breyting var á útflutningsverðmæti annarra vinnsluflokka á milli ára, eins og sést á myndinni hér fyrir neðan,“ segir í greiningunni
Útflutningsverðmæti fiskimjöls á fyrstu 10 mánuðum ársins nam 34 milljörðum króna, sem er þrefalt meira en á sama tímabili á síðasta ári. Þá er lýsi komið í 25 milljarða sem er 160% meira en fyrstu 10 mánuði í fyrra. Þá hefur útflutningsverðmæti frystra flaka aukist um 21% í 69 milljarða króna fyrstu 10 mánuði ársins.
Hvergi er samdráttur nema í útflutningi á heilfrystum fiski.
„Stór loðnukvóti á síðasta fiskveiðiári er ein af helstu ástæðum fyrir þessari myndarlegu aukningu í útflutningsverðmætum sjávarafurða í ár. En fleira kemur þó til, eins og sjá má á myndinni sem kemur fyrir hér neðst. Þar má sjá hvernig samspil afurðaverðs í erlendri mynt, gengi krónunnar og svo magns hefur áhrif á útflutningsverðmæti sjávarafurða í krónum talið. Eins má sjá hvernig þessi þróun er fyrir uppsjávarafurðir og svo botn- og flatfiskafurðir. Þetta er byggt á ársfjórðungstölum Hagstofunnar og því aðeins hægt að sjá þróunina á fyrstu 9 mánuðum ársins. Fyrri ár eru heilsárstölur,“ segir í greiningu Radarsins.
Þar er vakin athygli á að magn er megin skýring þess að útflutningsverðmæti uppsjávarafurða hefur aukist milli ára á fyrstu 9 mánuðum ársins borið saman við sama tímabil í fyrra.
„Hækkun afurðaverðs kemur einnig við sögu, en styrking á gengi krónunnar vegur aðeins á móti. Sé litið á botn- og flatfiskafurðir má sjá að aukninguna í útflutningsverðmætum má alfarið rekja til hækkunar á afurðaverði, enda hefur útflutt magn dregist saman samhliða samdrætti í afla. Þannig að þegar öllu er á botninn hvolft hefur afurðaverð átt stærstan þátt í þeirri aukningu sem orðið hefur á útflutningsverðmætum sjávarafurða í ár. Það blasir við þegar litið er á þróunina á útflutningsverðmætum sjávarafurða alls.“
Þrátt fyrir að mikil verðhækkun hafi átt sér stað á erlendu mörkuðum má ekki ætla að það sé eina skýring aukinna útflutningsverðmæta, samkvæmt Radarnum. „Hér skiptir sölu- og markaðsstarfs sjávarútvegsfyrirtækjanna ekki síður máli.“
Hátt verð er sagt geta „vegið upp þann samdrátt sem varð í úthlutuðu aflamarki ýmissa mikilvægra botnfisktegunda á yfirstandandi fiskveiðiári, eins og í þorski. Ekki veitir af því að afla meiri útflutningstekna þegar vöruinnflutningur er í örum vexti líkt og nú með tilheyrandi halla á vöruskiptum við útlönd.“