Fullveldisdaginn, 1. desember síðastliðinn, gengu kaup Síldarvinnslunnar hf. á Vísi hf. í gegn. Margt bendir til að Síldarvinnslan mun í auknum mæli beina bolfiskafla sínum til vinnslu í Grindavík. Ákveðið var að kaupa félagið í júlí en Samkeppniseftirlitið þurfti að taka afstöðu til kaupanna og samþykkti stofnunin kaupin um miðjan nóvember síðastliðinn.
Nú bíða spennandi verkefni er snúa að því að samþætta starfsemi félaganna á sviði bolfiskveiða og -vinnslu, er haft eftir Gunnþóri B. Ingvasyni, forstjóra Síldarvinnslunnar, í tilkynningu á vef félagsins. Hann segir jafnframt ljóst að Vísir sé vel rekið fyrirtæki og mun það styrkja Síldarvinnslusamstæðuna með ótvíræðum hætti.
„Vísir var fjölskyldufyrirtæki og við komin á þau tímamót að horfa til framtíðar með rekstrarformið. Við teljum að það hafi verið mjög skynsamlegt að fá hlutabréf í Síldarvinnslunni í skiptum fyrir fyrirtækið og taka þannig þátt í áframhaldandi uppbyggingu bolfiskhlutans hér í Grindavík,“ segir Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, í tilkynningunni.
„Það er borin mikil virðing fyrir Síldarvinnslunni og menn treysta henni í hvívetna. Innan Síldarvinnslunnar og í eigendahópi hennar er að finna landsliðið í íslenskum sjávarútvegi. Þar er mikil reynsla og þekking. Það er tilhlökkunarefni að hefja störf innan samstæðu Síldarvinnslunnar og við lítum framtíðina björtum augum,“ fullyrðir hann.
Afli til Grindavíkur
Ufsi sem Bergur VE, togari gerður út af dótturfélagi Síldarvinnslunnar, landaði í Vestmannaeyjum 15. nóvember síðastliðinn var fyrsti aflinn sem skipið hefur skilað til vinnslu hjá Vísi. Gera má ráð fyrir að skip Síldarvinnslunnar muni í auknum mæli skila afla til vinnslu í Grindavík, sérstaklega vegna þess hve skorinn skammtur er af hráefni um þessar mundir eftir umfangsmiklar kvótaskerðingar síðustu ára.
Vísir rekur bæði saltfiskvinnslu og frystihús í Grindavík auk þess að gera út sex fiskiskip. Floti fyrirtækisins samanstendur af þremur stórum línubátum, einu togskipi og tveimur krókaaflamarksbátum. Hjá hjá fyrirtækinu starfa um 250 manns, 100 á sjó og 150 í landi.
Þá fylgir kaupunum einnig töluverðar aflaheimildir og hefur Vísir farð með 5,41% af úthlutuðum kvóta í þorski, 6,14% í ýsu og 1,73% í ufsa.