Til að tryggja að vetrarmælingin á loðnustofninum verði marktæk fer nú fram könnunarleiðangur þar sem safnað er upplýsingum um göngur og dreifingu loðnustofnsins norður og austur af landinu. Síðasta mæling reyndist ekki marktæk.
Árni Friðriksson, rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar, lagði frá bryggju í Hafnarfirði í morgun og fer loðnukönnunin fram í samstarfi við útgerðir uppsjávarveiðiskipa sem greiða fyrir þann aukakostnað Hafrannsóknastofnunar sem af henni hlýst, að því er fram kemur í tilkynningu á vef Hafrannsóknastofnunar.
Þar segir að upplýsingunum sem safnað er er ætlað að „hjálpa til að ákveða, hvenær það sé líklegast til árangurs að fara til mælinga á stærð loðnustofnsins og ná sem markverðustu mælingu á honum. Eins verði hægt að ákvarða það magn sem komið er inn á loðnumiðin og mögulega það magn sem kann að ganga snemma inn í hlýsjóinn suðaustanlands og tapast af mælisvæðinu, ef til þess kæmi.“
Þriðja mælingin
Gert er ráð fyrir að þessi könnun taki um eina til tvær vikur og í kjölfarið verður haldið til hefðbundinna stofnmælinga á báðum skipum Hafrannsóknastofnunar. Þær mælingar munu svo liggja til grundvallar að lokaveiðiráðgjöf á loðnu á þessari vertíð.
Bundnar eru vonir við að takist að ná marktækri mælingu sem skili af sér grundvöll fyrir auknum loðnukvóta, þó getur mæling sem þessi leitt til þess að veiðiráðgjöf verði lækkuð eins og gerðist í kjölfar vetrarmælingu síðasta árs.
Komandi mæling verður sú þriðja sem fer fram vegna yfirstandandi vertíðar en aukamæling sem farið var í í desember síðastliðnum skilaði ekki marktækum niðurstöðum. Aukamælingin kom til vegna mikils misræmis í niðurstöðu mælinga á veiðistofni loðnu í september síðastliðnum og ungloðnu haustið 2021 sem leiddi til langtum minni veiðiráðgjöf en búist var við.