Þeir sem kíktu á heimasíðu Síldarvinnslunnar í morgun urðu fyrir vonbrigðum því þar var fátt um kolmunnaveiðar, landanir togara samstæðunnar eða eitthvað um síðasta rekstrarár í nýjustu færslunum. Þar voru hins vegar fjöldi færslna um bætt netöryggi og hvernig sé best að velja VPN til að opna á sem mest efni á Netflix.
Hafði heimasíðan orðið fyrir árás tölvuþrjóta og sáust færslurnar þar klukkan átta í morgun. Að því sem blaðamaður kemst næst hófust færslurnar að birtast í gær eða í nótt.
Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, segir um að ræða heldur smávægilegt atvik þar sem aðeins hafi verið komist inn í færslukerfi heimasíðunnar, að tekist hafi að rekja vandann og að öll kerfi félagsins séu örugg. Hafði klukkan hálf níu tekist að eyða öllum færslum tölvuþrjótanna.
Ráðgjöfin var af ýmsum toga.
Skjáskot/Síldarvinnslan
Veittu ráðgjöf
„Facebook varð fyrir töluverðu hakki sem afhjúpaði persónulegar upplýsingar tæplega hálfs milljarðs notenda. Öryggisgallarnir voru notaðir af netglæpamönnum. Sumar staðreyndirnar sem stolið var voru símanúmer, netföng og staðsetningu,“ sagði í einni færslunni sem endaði með því að lýsa hvernig notendur gætu bætt öryggi sitt.
Í annarri færslu sagði að það geti munað miklu að nota besta VPN-ið fyrir Netflix til að komast hjá takmörkunum á efni streymisveitunnar fyrir mismunandi markaði.
Hverju tölvuþrjótarnir ætluðu að ná fram með þessu uppátæki sínu er óþekkt.
Uppfært klukkan 08:57: Upplýsingar bárust um að lítilvægt atvik hafi verið að ræða og að öll kerfi Síldarvinnslunnar væru örugg. Hefur fréttin verið uppfærð með tilliti til þess.
Eitthvað af því sem birtist á vef fyrirtækisins.
Skjáskot/Síldarvinnslan