„Á íslenskum markaði eru til tvö sérlyf fyrir adrenalín penna með markaðsleyfi, EpiPen og Jext. Þessi lyf eru bæði í skorti í dag, en von er á undanþágulyfi til landsins á næstu dögum,“ segir í svari Lyfjastofnunar við fyrirspurn blaðamanns um skort á adrenalínpennum.
Reglugerð um heilbrigðisþjónustu, lyf og lækningatæki um borð í íslenskum skipum sem sett var af Sigurði Inga Jóhannssyni innviðaráðherra 28. nóvember síðastliðinn gerir ráð fyrir að slíkir pennar séu um borð í 2.240 sjóförum, þar á meðal í 1.917 bátum sem eru minni en 15 metrar að lengd.
Samgöngustofa upplýsir í Morgunblaðinu í dag að lyfjafræðingar hafi vakið athygli stofnunarinnar á að því að „hugsanlega sé þessu lyfi ofaukið fyrir minni skip og Samgöngustofa hefur komið ábendingum þess efnis til ráðuneytisins, sem er að skoða málið“.
Í umræddri reglugerð er krafist að um borð í sjóförum séu lyfjakistur sem innihalda fjölda lyfja og lækningatækja sem ítarlega er útlistað í viðauka reglugerðarinnar. Lyfjakisturnar þurfa að standast árlega úttekt og skal eftirlitið framkvæmt af starfandi lyfjafræðingi eða lækni að beiðni útgerðarmanns, öryggisstjóra eða skipstjóra.
Fram kemur í svari Lyfjastofnunar að geymsluþol EpiPen og Jext (adrenalínpenna) er „22-24 mánuðir frá framleiðsludagsetningu, þó má búast við því að lyfið hafi styttri fyrningu þegar það er afgreitt úr apóteki.“ Á þeim grundvelli gæti hæglega farið svo að festa þurfi kaup á nýjum penna árlega til að lyfjakistur standist kröfur reglugerðarinnar.
Í ljósi skorts á adrenalínpennum var Lyfjastofnun spurð hvort skortur sé á eitthvað af þeim fjölda lyfja sem upp eru talin í viðauka reglugerðarinnar. „Önnur skráð lyf sem fram koma í reglugerðinni eru ekki í lyfjaskorti,“ segir í svarinu.
Var átt samráð við lyfjastofnun við mótun þeirra krafna sem gerðar eru um einstök lyf í íslenskum skipum?
„Innviðaráðuneytið og Samgöngustofa óskuðu eftir aðkomu Lyfjastofnunar við yfirferð á drögum að reglugerð um heilbrigðisþjónustu, lyf og lækningatæki um borð í íslenskum skipum í febrúar á sl. ári. Lyfjastofnun skilaði inn athugasemdum við ákvæði reglugerðarinnar í lok febrúar á sl. ári,“ segir í svarinu.
„Lyfjastofnun hafði ekki aðkomu að yfirferð að lyfjaskrá reglugerðarinnar. Stofnunin benti Innviðaráðuneytinu og Samgöngustofu á að yfirferð á lyfjaskrá um borð í skipum á sjó væri ekki eitt af lögbundnum hlutverkum Lyfjastofnunar. Lyfjastofnun vísaði Innviðaráðuneytinu og Samgöngustofu á að til væru sjálfstætt starfandi lyfjafræðingar sem veita þjónustu á ýmsum sviðum lyfjafræðinnar til fyrirtækja og stofnanna sem gætu tekið slíkt verkefni að sér, ef sú þekking væri ekki til staðar hjá Samgöngustofu.“