Forseti Íslands er nú staddur um borð í varðskipinu Freyju sem er á leið til togarans Hrafns Sveinbjörnssonar sem varð aflvana um 50 sjómílur norð-norðvestur af Straumsnesi í nótt. Er áætluð koma skipsins að togaranum um klukkan ellefu.
Reynt verður að aðstoða vélstjóra togarans við að koma vélum í lag en ef það heppnast ekki þá draga hann áleiðis til Ísafjarðar. Sæmilegasta veður er eins og er þar sem Hrafn Sveinbjarnason er staddur en spáð er að veður versni þegar líða tekur á daginn, að því er fram kemur í tilkynningu Landhelgisgæslunnar.
Forsetinn fékk far
Tilkynning um togarann barst Landhelgisgæslunni um klukkan fjögur í nótt og var þá haft samband við Freyju sem var á leið inn á Patreksfjarðarflóa. Fyrirhugað var að skipið yrði hluti af minningarathöfn eftir hádegi í dag vegna krapaflóðsins sem féll á Patreksfjörð fyrir 40 árum síðan.
Það vill svo til að Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ásamt bílstjóra embættisins, er staddur um borð í varðskipinu og verður með þegar að aðgerðirnar fara fram.
Hann var sóttur til Grundarfjarðar í gærkvöldi en varðskipið var við útskipti á öldumælisdufli á Breiðafirði í gær og ákveðið í samráði við forsetann og forsetaembættið að hann sigldi með varðskipinu til Patreksfjarðar þar sem að tvísýnt var um landleiðina til að komast á á minningarathöfnina á Patreksfirði.
Vakinn af værum svefni
Í tilkynningu Landhelgisgæslunnar kemur segir að forsetinn hafi verið vakinn upp af værum svefni í nótt og spurður hvort að hann vildi að reynt yrði að koma honum í land
Hann vildi ekki að aðgerðir varðskipsins tefðust vegna þess og siglir því með skipinu. Að sögn skipherra varðskipsins Freyju er forsetinn orðinn sjóaður og fylgist vel með gangi mála.
Guðni Th. Jóhannesson um borð í varðskipi á hafi úti.
mbl.is/Sigurður Bogi